
Bestu auglýsingarnar?
Nú þegar stærsta sjónvarpsauglýsingahelgi Bandaríkjanna er afstaðin spyrja markaðslúðar sig að því hvaða auglýsingar stóðu upp úr í Superbowl. Eftir nokkrar vikur er svo ÍMARK-hátíðin hérna heima þar sem samkvæmisleikurinn okkar um hverjir-eru-bestir nær árlegum hápunkti.
Hvað eru góðar auglýsingar og af hverju?
Oft(ast) er erfitt að átta sig á hvernig markaðs- og auglýsingaspekingar komast að niðurstöðunni um sigurvegara.
Stundum er það bara ekkert sérstaklega rökstutt, eins og í þessari samantekt auglýsingastofunnar Hvíta hússins um Superbowl eða frekar óljóst, eins og í AÁÁ á Ímark hátíðinni þar sem dómnefnd “veitir frumlegum, skapandi og snjöllum hugmyndum, sem eru útfærðar á framúrskarandi hátt, viðurkenningu” svo vitnað sé beint í ÍMARK.

Er hægt að rökstyðja þetta betur?
Þegar ég lærði “advertising strategy” var eitt af því sem við notuðum svokallaður ADPLAN módel til að meta auglýsingar. Það er að mínum dómi fín leið til að neyða sig til að horfa á ákveðna þætti og bera þá saman.
Frá því ég var í skólanum hef ég fylgst með árlegu Kellogg School of Management Superbowl Ad Review. Þar metur stór hópur nemenda, undir stjórn prófessoranna Rucker og Calkins, auglýsingarnar allar með ADPLAN og birtir niðurstöðu að leik loknum. Þetta er svaka viðburður sem skemmtilegt er að taka þátt í.
Auðvitað er hægt að deila um þessar sex breytur en þetta er a.m.k. einföld kerfisbundin leið til að meta auglýsingarnar umfram það að “finnast hún bara helvíti góð” eða “hitta í mark”.

Amazon vann
Í ár mat Ad Review hópurinn Amazon auglýsinguna besta en skammt undan voru Mountain Dew, Doritos, Tide, Avocados from Mexico og Wendy’s en falleinkunn fengu Squarespace ogT-Mobile.
Ég er hrifinn af ADPLAN í samhengi svona stórhátíða eins og Superbowl eða AÁÁ. Ég skrifaði til dæmis pistil á ensku um Superbowl niðurstöðuna og spurði mig hver vann eftir Superbowl í fyrra.
ÁÁÁ væri betri með ADPLAN
Ég held til dæmis að AÁÁ hátíðin væri betri ef svona skilmerkilegt módel væri grunnur að (a.m.k.) helstu flokkum frekar en hið frekar óljósa mat sem nú er framkvæmt og þeir sem sendu inn tilnefningar vissu að svona yrðu auglýsingarnar metnar.
Hugsa að við sjáum nú ekki breytingar í þessa átt á AÁÁ/Ímark deginum núna 9. mars en alveg víst að þar heldur “hverjir eru bestir” samkvæmisleikurinn áfram.