Gengi Bitcoin tuttugufaldaðist frá lægsta gildi til toppsins árið 2017. Frá hápunkti Bitcoin rissins undir lok síðasta árs hefur gengið lækkað um 80%, þar af um 40% síðasta mánuðinn. Á sama tíma hefur áhugi stórkostlega dregist saman. Er Bitcoin bólan sprungin eða er þetta fall upphaf annars riss?

Áhugi var ævintýralegur í risinu, í takti við gengishækkunina. Ég ræddi til dæmis við nokkra fjölmiðla um Bitcoin í kringum hápunktinn síðasta vetur. Þá gengu spurningar oft út á hvort fólk væri búið að missa af lestinni eða hvort rétt væri að kaupa núna. Sem betur fer forðaðist maður stóryrði en þá mátti ljóst vera að önnur eins hækkun á gengi Bitcoin var heldur ólíkleg. Ef sama hækkun hefði haldið áfram væri virði Bitcoin núna meira en allra hlutabréfa í heiminum sem erfitt var að trúa fyrir ári.

Þegar gengið lækkaði hvarf áhuginn. Nú er eiginlega enginn áhugi á Bitcoin og það kemst helst í fréttirnar þegar einhverjir óprúttnir glæponar vilja lausnargjald fyrir stafrænar eignir, eins og nýleg frétt af Páli ljósmyndara er dæmi um, eða fréttir um svakalegt vistspor sem Bitcoin námagreftri fylgir.

Hagfræðingar líta gjarnan til einkenna til að greina mynstur. Skilgreining fjármálabóla byggir á slíku og svipar mynstrum túlipanabólunnar í Hollandi 1636, Suðursjávarbólunnar 1720 og Bitcoin bólunnar jólin 2017 mjög saman. Þær eiga það sammerkt að risið var hátt og hratt og óeðlilegar væntingar og eftirspurn keyrðu upp verð sem svo hrundi enn hraðar þegar væntingar og eftirspurn breyttust. Á endanum urðu örlög bólanna allra engin önnur en þau að fáir græddu, mjög mikið hver, á uppleiðinni og margir töpuðu heilmiklu á niðurleiðinni.

Bitcoin bólan trónir í sögulegum samanburði fjármálabóla á toppnum í verðþróunaröfgum með sextíuföldun. Hinar bólurnar voru mest um þrjátíuföldun, ef litið er til baka sem nemur þremur árum frá toppi auk þess sem þær flestar voru alveg sprungnar innan árs frá toppnum.

Þetta hefur eðlilega valdið hinum hreintrúuðu nokkrum áhyggjum og ólga verið meðal helstu Bitcoin spekinga á Twitter. Sumir taka bruna ársins þó létt. Daníel Jónsson sem er innsti koppur í íslenska Bitcoin og blockchain búrinu og stýrir blockchain tækni Advania Data Center átti t.d. ansi gott tíst um daginn.

Aðrir hafa bent á að Bitcoin hefur aldrei hentað þeim sem eru ekki með maga í að melta miklar sveiflur og aldrei sé betri tími til að kaupa Bitcoin en þegar áhugi almennings er í lágmarki. Þeir segja að hrunið nú sé bara eins og fyrri sveiflur. Þá fylgdi miklu hruni enn meiri hækkun og hálfu til tveimur árum eftir fallið var búið að ná nýju hámarki.

Stóri dómur Bitcoin hefur ekki fallið og fellur örugglega ekki strax. Bitcoin bruni þessa árs gæti verið upphafið að endalokum Bitcoin eða upphafið að nýju og enn hærra risi. Enn er Bitcoin eignaflokkur, spákaupmennskueign, þó margir hreintrúaðir líti á Bitcoin sem gjaldmiðil og Bitcoin hafi upphaflega verið hannað sem gjaldmiðill. Enn er þó ekki útséð um hvort Bitcoin verði nokkurn tímann gjaldmiðill. Í dag horfir maður á Bitcoin sem eignaflokk sem leitað er eftir ávöxtun á og nánast öll umfjöllun er á þeim nótum; hversu mikið gengið hækkaði eða lækkaði dag frá degi frekar en hversu skilvirkur greiðslumiðill eða góð varðveislueining verðmæta Bitcoin er.

Bent hefur verið á, réttilega, að þrátt fyrir hrun ársins er ávöxtun þeirra (fáu) sem hafa haldið Bitcoin frá upphafi ársins 2017 betri en annarra ávöxtun nokkurs annars eignaflokks. Ávöxtun hinna, sem keyptu Bitcoin á þessu ári er þó ekkert til að stæra sig af, a.m.k. ekki í bili.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store