Bækur fyrir Hauk og hina

Björgvin Ingi Ólafsson
4 min readNov 25, 2020

--

Góður drengur sendi mér póst í vikunni með nokkrum bókameðmælum og bað mig um að svara í sömu mynt.

Ákvað að skella því sem mér datt fyrst í hug bara hingað inn. Ekki eins og þetta séu nein leyndarmál.

  1. The Culture MapErin Meyer
  2. No Rules Rules — Erin Meyer og Reed Hastings
  3. DetonateGeoff Tuff og Steven Goldbach
  4. Range David Epstein
  5. Competing in the Age of AI — Marco Iansiti, Karim R. Lakhan

The Culture Map

Ég las bók Erin Meyer í fyrra þegar fyrir lá að ég myndi hlusta á hana flytja erindi út frá bókinni skömmu síðar. Helstu meðmælin með bókinni eru að ég hefði viljað lesa hana fyrr. Viss um að samskipti mín við samstarfsfólk á skrifstofunni eða skólafélaga í Chicago hefðu verið meitlaðri ef ég hefði lesið bókina. Hún er fáránlega gott hjálpartæki fyrir fólk sem á í alþjóðlegum samskiptum og samstarfi í vinnu.

Erindi Erin var svo kraftmikið og skemmtilegt. Hún er amerískur prófessor í frönskum skóla og ekkert er farið að rjátlast af henni Ameríkaninn. Ég viðurkenni það að ég lít stælana sem eru oft í amerískum kraftafyrirlesurum jákvæðum augum en skil að sumum þykir þetta yfirdrifinn stíll.

No Rules Rules

Nýjasta bók Erin Meyer skrifar hún með Reed Hastings stofnanda Netflix. Bókin er meðal tilnefndra bók sem viðskiptabók ársins hjá FT. Hafandi lesið margar bækur um uppbyggingu fyrirtækjamenningar og ófáar sögurnar um af hverju Netflix hefur náð árangrinum sem það hefur náð er kannski að bera í bakkafullan lækinn að bæta þessari í.

Bókin er hins vegar hressandi og sýnir hvað hægt er að gera í stjórnun ef gildin eru ljós og fyrirtækjabragurinn meitlaður. Það sem er lagt til virkar alveg pottþétt ekki alls staðar. Engu að síður hressandi og hugvekjandi lesning.

Detonate

Bækur sem segja þér að gera hlutina allt öðruvísi en gert hefur verið eru stundum svolítið misheppnaðar. Þessi hjálpar manni samt að festast ekki í einhverjum módelum eða verklagi. Þar er lögð áhersla á sjö punkta þar sem uppáhalds punkturinn er einmitt um að stefnumarkandi vinna á það of oft til að vera föst í stöðluðu ferli í kringum sniðmát sem eru fyllt út í áætlanagerðarvinnu en gleymast svo í kjölfarið.

Rúsínan í pylsuendanum er að Tom Fishburne, maðurinn á bak við hinar frábæru Marketoonist myndasögur sem eru í sérstöku uppáhaldi, teiknar myndir í bókinni sem eru hver öðrum betri.

Upplýsandi viðtal við höfundana með dæmum úr bókinni (og vel valin mynd).

Range

Líklega mesta léttmetið af bókunum er eftir íþróttablaðamanninn David Epstein. Bókin er skemmtilegt mótvægi við bækur eins og Outliers Gladwell sem leggur áherslu á ofurfókus, 10.000 klukkutímana til að ná árangri og og þú eigir að sökkva þér djúpt í eitthvað eitt og ekkert annað. Bókin byrjar á sögunum af Tiger Woods og Roger Federer sem náðu báðir ótrúlegum árangri með algjörlega andstæðum uppvexti og þjálfun. Augljóst þegar maður hugsar það en það aðð horfa á annan og draga ályktun um að þeirra leið sé hin eina rétta er kannski ekki alveg málið.

Að vera sæmilegur í mörgu frekar en svakalegur í einu hljómar líka ágætlega í samhengi hins litla íslenska markaðar.

Ágætis upphaf að tékka á Ted ræðunni hans frá því í september.

Competing in the Age of AI

Líklega “þyngsta” bókin í þessum hópi en erfiðisins virði. Ég þurfti að lesa nokkrar síður tvisvar til að ná punktunum. Sóru atriðin snúa að því hvernig hagur er af því að skipuleggja fyrirtæki í kringum gögn, greiningar og gervigreind og eyðir takmörkunum í skalanleika og lærdómi sem hefur aftrað okkur til þessa.

Með sniðugri umgjörð og fullt af dæmum er okkur sýnt hvernig hægt er að vinna stefnumótun með þetta að leiðarljósi með allt önnur markmið og mælikvarða en áður.

Ágætis inngangur að byrja á greininni í HBR: Competing in the age of AI

Úr HBR greininni

--

--