Image for post
Image for post

Chicago — Besta borg Bandaríkjanna

Ég bjó í Chicago í rúm þrjú ár og þykir afskaplega vænt um borgina. Mér þykir hún öðrum (bandarískum) borgum fremri. Ég heimsæki hana oft og finnst á fáum stöðum betra að vera.

Fyrir nokkrum árum spjallaði ég við Túrista.is um Chicago, ég skrifaði svo meira um uppáhalds borgina mína árið 2016 þegar Icelandair hóf flug til borgarinnar. Uppfærði svo aðeins þegar Wow Air byrjaði að fljúga en þegar Wow hætti ferðum til Chicago er tími til að uppfæra aftur. Það má því segja að þessi pistill sé útgáfa 4.0 af boðskap mínum um ágæti borgarinnar.

Það er hægt að skrifa margt um Chicago og svo er líka auðvelt að gúggla og undirbúa sig. Set þetta fram í þremur köflum; matur, menning og lífið (við síðasta flokkinn bættist þó viðauki sem lengdist og lengdist og úr varð smá hrærigrautur hluta sem ég vildi endilega koma að).

Matur

Chicago hefur upp á allt að bjóða í mat. Þú getur borðað hvaða “cuisine” sem er og ef þú undirbýrð þig vel verður maturinn afbragð. Ef þú vilt finna besta matinn frá Eþíópíu eða Búrma þá finnur þú gómsætan slíkan með smá undirbúningi. Sem dæmi kemstu fljótt að því að ef þú vilt indverskan mat að best er að fara á Devon Ave. Hérna er til dæmis umfjöllun um bestu staðina á Devon, uppáhaldið mitt er Hema’s Kitchen en margir góðir staðir eru þarna aðrir og fæsta hef ég prófað. Ef þú vilt indverskt fusion flipp þá má líka mæla með Vermilion sem er fansí staður í miðbænum.

Árlega taka nokkrir Íslendingar þátt í Chicago maraþoninu í október. Þá er gjarnan spurt um gott steikarhús. Þar sem borgin e alvöru borg og urmull af steikarhúsum af svipuðum gæðum hefur mitt ráð einfaldlega verið að finna eitthvað sem lítur sómasamlega út nálægt gististaðnum. Með smá rannsóknum klikkar það ekkert, frekar en að kleyra langa vegalengd til að fá það besta. Eitthvað af þessum er örugglega í nágrenni við þig.

Góður maður vildi svo að við bættist hér Dusek’s Board & Beer sem ku vera góður og hóflega verðlagður staður þar sem bjór er paraður við mat af miklum myndarbrag — já og allt á hálfvirði á miðvikudögum. Hugsa ég kíki þangað við tækifæri.

Þeir sem koma til Chicago og vilja fá besta matinn og eru tilbúnir að borga fyrir það fara á Alinea, þriggja Michelin stjörnu stað sem afskaplega erfitt er að fá borð á. Ég fór á Alinea í fyrsta sinn 2018 og það stóðst allar væntingar. Ótrúleg upplifun og minningasúpa að fara þangað. Matarupplifun á Alinea er ekki lík neinu sem ég hef áður prófað og upplifun margra skilningavit. Kvöldið byrjaði til dæmis á því að þjónarnir rugluðu aðeins í okkur með því að hafa borðauppröðun öðruvísi fyrstu mínúturnar en hún var svo þegar leið á kvöldið.

Þeir sem vilja verja minnu geta líka tekið orð eiganda og hugmyndasmiðs Alinea, Grant Achatz, trúanleg um hvar megi finna ódýran og góðan mat í Chicago.

Það kom skemmtilega á óvart þegar veitingarýnirinn Zagat setti uppáhalds staðinn minn, Avec, í fyrsta sætið yfir bestu veitingastaði Chicago, sæti ofar en Alinea. Það er ansi mikið afrek því maturinn á hinum síðarnefnda er a.m.k. fimm sinnum dýrari og örugglega vel það þegar allt er talið til.

Image for post
Image for post
Avec er vinalegur staður á skemmtilegum stað í miðbænum.

Af öðrum matarupplifunum má nefna systurstað Alinea, Next, sem er með set-menu þar sem þú kaupir miða á tiltekið kvöld fyrirfram en veist ekki annað um það hvað þú færð að borða en þema kvöldsins, og hins vegar The Aviary, sem er fyrst og fremst kokteilastaður Achatz sem býður upp á smá mat líka þó kokteilarnir séu aðal málið. Þar pantarðu “five drinks with food” en ekki öfugt. Með gúggli má finna svakalegar myndir af eðlisfræðikokteilum Aviary. Achatz er svo með tvo aðra staði í Chicago, einnar stjörnu Michelin staðinn Roister og í kjallaranum á Aviary er svo “speak-easy” drykkjastaðurinn Office.

Image for post
Image for post
Drykkur frá the Aviary — Mynd: http://vodamagazine.net/wp-content/uploads/2014/10/VODA-Magazine-Insane-in-the-Membrillo-Porthole.jpg

Auðvelt er að nefna dæmi um fleira úr eldhúsi Chicago borgar:

Image for post
Image for post
Wormhole
  • Besta kaffið er á The Wormhole Coffee í Wicker Park. Hipsterakaffi sem er með gott bakarísdóterí og gæðafíling.
Image for post
Image for post
Wormhole kaffi
  • Undarlegustu upplifunina færðu ef þú pantar “chocolate milk shake” á Wiener Circle. Ekki skamma mig ef þið farið þessa leið en þetta verður einstakt. Sýnist reyndar að staðurinn hafi verið seldur árið 2015 en vonandi er hann alveg jafn ruglaður og áður.
  • Ef þú vilt fá skemmtilega “high tea” upplifun þá er best að gera það á The Drake Hotel.
Image for post
Image for post
Edzo’s — Svona fögnuðum við feðgarnir afmælinu mínu árið 2013
  • Merkilegasta hamborgara-upplifunin fæst á Kuma’s Corner þar sem pönkaðir kokkar taka vel á móti þér — en hætt við að þú þurfir að bíða í klukkutíma eða tvo nema þú mætir eldsnemma.
Image for post
Image for post
Feðgar á Smoque sumarið 2016
  • Hamborgarauppáhaldið mitt, og líka USA Today / Zagat sem valdi staðinn einn af 25 bestu hamborgarastöðum Bandaríkjanna og besta hamborgarastað Chicago, er Edzo’s Burger Shop í Evanston, um 30 mínútur í norður frá miðbænum. Þar opnaði gúrmekokkurinn Ed 70s hamborgarastað fyrir nokkrum árum með fáránlega góðum borgurum, frönskum sem eru engu líkar og besta sjeik borgarinnar.
  • Besti BBQ: Smoque BBQ er ódýr en stórkostlegur BBQ staður. Þar getur mætt með eigin drykki, BYOB.

Ég tók á móti Michelle Hayward, innfæddum Chicago-an, í Reykjavík haustið 2016 og hún vildi endilega bæta við meðmælum:

Brunch: Soho House Chicago
Bloody Marys: Old Town Social
A Tavola. Italian, intimate, amazing
Tocco — all of what you wish you ate every day
Drinks: Violet Hour — most people have never been to a place like this
Boeufhaus — The New York Times Travel: It’s Not a Chicago Steakhouse, but There’s Plenty of Beef

Menning

Leikhús: Eins og í alvöru stóborgum er mikið leikhúslíf í Chicago; allt frá þyngri klassískra verka til gleði- og söngleika af ýmsu tagi. Eitt af því sem er skemmtilegast í leikhúslífinu er The Second City grínleikhópurinn þar sem margar stjörnur byrja vegferðina og halda áfram í Saturday Night Live og svo í Hollywood stórmyndir. Marga má nefna sem farið hafa þessa leið en til dæmis byrjuðu Chris Farley og Tina Fey ferilinn í Second City.

Íþróttir: Fáir elska íþróttaliðin sín meira en Chicago-búar. Undanfarin ár hefur íshokkíliðið Chicago Blackhawks landað fjölmörgum titlum, borgarbúum til ómældrar gleði en sigurganga Chicago Bulls fyrir tveimur áratugum með Michael Jordan í fylkingarbrjósti er borgarbúum enn í fersku minni þó síðustu ár hafi verið heldur rýrari en við var búist.

Ást íbúa norðurhluta borgarinnar á hafnaboltaliðsinu Chicago Cubs, sem leikur heimaleikina á hinu goðsagnakennda og eldgamla Wrigley Field, er fölskvalaus.

Cubs liðið er kallað “the lovable losers” og eru fjölmargar sögur um álög sem á liðinu hvíla frægar. Áratuga vonbrigði stöðvuðu þó borgarbúa ekki í að fylla völlinn á hverjum leik og eftir að hafa ekki unnið titilinn frá 1908 vann Cubs titilinn 2016 við ótrúlega gleði borgarbúa.

Image for post
Image for post
Mættur á Wrigley Field vorið 2018. Mynd: Thorlindur Kjartansson

Skemmtileg upplifun er að skoða Wrigley Field, Wrigleyville hverfið í kring og jafnvel skella sér á leik eða í skoðunarferð um völlinn. Til viðbótar má nefna hitt hafnaboltaliðið White Sox sem er í suðrinu og football liðið Chicago Bears og fótboltaliðið Chicago Fire í borginni sem hafa öll lítið gert.

Þeir sem ætla að skella sér á leiki ættu bæði að skoða Ticketmaster og StubHub!. Á StubHub! eru ársmiðahafar oft að selja miða með litlu álagi á það verð sem þeir borguðu og því er official verðið sem er á Ticketmaster oft hærra en á StubHub! (má líka tékka á SeatGeek).

Söfn: Í Chicago erufn í heimsklassa. Í miðbænum er hægt að verja mörgum dögum í að fara milli safna eins og Museum of Science and Industry, Field Museum, Adler Planetarium, Shedd Aquarium en hæst trónir þó klárlega The Art Institute of Chicago sem er án efa eitt besta, ef ekki besta, listasafn Bandaríkjanna.

Bestu barna- og fjölskyldusöfnin eru Shedd Aquarium, Museum of Science and Industry og Chicago Children’s Museum at Navy Pier þar sem börn geta alveg pottþétt leikið sér í marga klukkutíma. Dýragarðurinn Lincoln Park Zoo er líka fjölskylduvænn og aðgengilegur. Þar kostar ekkert inn, hann er í sniðugu hverfi, Lincoln Park, skammt frá miðbænum og góðar almenningssamgöngur eru þangað þannig að það er engin ástæða til að leggja í rándýru bílastæði við garðinn og sniðugt að mæta þangað með nesti því maturinn þar er frekar dýr og ekkert sérstakur. Annar dýragarður, Brookfield Zoo, er stærri en hann er nokkuð fyrir utan bæinn og í raun óþarfi að fara þangað nema dýragarðaáhuginn sé þeim mun meiri.

Tónlist: Að sögn fróðra er sinfoníuhljómsveit Chicago sú besta í Bandaríkjunum. Tónleikalíf borgarinnar er frábært og má gjarnan skoða dagskrána í hinu sögufræga Chicago Theatre en til viðbótar er urmull skemmtilegra tónleikastaða eins og Lincoln Hall, The Vic, The Metro, Riviera Theater og minni staðir eins og Schubas Tavern. Á sumrin eru skemmtilegir og oft ókeypis útitónleika vikulega á útitónleikasvæði í Millenium Park í miðbænum og sömuleiðis áhugaverð útitónleikahátíð flestar helgar um 30 mínútur norður, Ravinia, þar sem gamlir meistarar troða gjarnan upp á sumrin. Hápunktur tónlistarlífsins er að mínum dómi Lollapalooza hátíðin sem fer fram í Grant Park í miðbænum í byrjun ágúst og er lang skemmtilegasta tónlistarhátíð sem ég hef farið á. Miðar seljast jafnan um leið og þeir fara í sölu en yfirleitt er hægt að kaupa miða skömmu áður á eftirmarkaði engu að síður.

Lífið

Á sumrin er ótrúlega gaman að hlaupa meðfram strandlengjunni “Lakefront trail” og fara á ströndina og njóta blíðunnar. Þó borgin sé ekki við sjó þá gleymirðu því strax því Lake Michigan er svo stórt að það gæti allt eins verið úthaf.

Það er skylda hjá öllum sem borgarinnar koma að taka myndir af “skyline-inu” sem er eitt hið fallegasta í Bandaríkjunum og sömuleiðis spegla sig í Bauninni. Skammt frá Bauninni er nútímalistaverkið Crown Fountain þar sem krakkar geta buslað á heitum sumardögum. Gott er að vita af því þegar krakkar þurfa að kæla sig niður á heitum sumardögum.

Image for post
Image for post
Baunin — Mynd: https://iso.500px.com/25-most-photographed-cities-on-500px/

Vinsælt er að fara upp í annan tveggja hæstu turna borgarinnar. Í Willis Tower (sem enginn heimamaður kallar annað en Sears tower) getur þú farið í Skydeck Chicago, hæsta sess borgarinnar, en það má alveg færa rök fyrir því að skemmtilegra sé að fara upp í John Hancock Observatory og þar sé betra útsýni yfir vatnið og borgina. Okkur þótt rosa gaman í arkitekúrs-bátsferð borgarinnar og best er að fara í “official túrinn” þó margt annað sé í boði.

Veðrið í Chicago er svo sannarlega fjölbreytt en borgin þó ekkert sérlega vindasöm þó borgin sé kölluð “Windy City”. Heimamönnum finnst þetta nafn reyndar yfirleitt frekar glatað og vilja frekar kalla hana “CHI-town” enda er nafnið dregið af vindbelgjunum í pólitík borgarinnar.

Vorið er yndislegt í Chicago þó brugðið geti til beggja vona allt fram í apríl. Mér þykir september og maí fyrirmyndar heimsóknarmánuðir og júní sömuleiðis og október oftast nær. Það er oftast (of) heitt í júlí og ágúst og heldur rakt. Á vetur getur verið napur, þó ekkert endilega kaldari en til dæmis í New York. Köldustu dagarnir eru þó ískaldir. Sveiflurnar að vetri til geta verið stórfelldar. Ég man eftir dögum þar sem var 20 gráðu frost í tvo daga og svo 10 gráðu hiti næsta dag. Vetrarheimsóknir krefjast því þess að alir klæði sig vel — alveg eins og á austurströndinni.

Groupon var stofnað í Chicago‎ og það getur verið sniðugt fyrir ferðamenn sem stefna í heimsókn að fara á póstlistann þar. Tilboð upp á 50% afslátt af alls konar afþreyingu og veitingastöðum henta ferðamönnum vel til að nýta í heimsóknum. Gott er að skrá sig og kaupa með góðum fyrirvara því takmarkaður fjöldi tilboða kemur á hverjum degi.

Heillaráð er að nota opentable.com, eða Open Table appið, til að bóka borð á veitingastöðum með góðum fyrirvara — eða þegar komið er til borgarinnar.

Túristagildrur Chicago eru fáar. Navy Pier svæðið er ekkert sérstaklega skemmtilegt þó það sé auglýst grimmt og eina alvöru ástæða þess að fara þangað er að mínum dómi ef þú vilt taka krakkana í Chicago Children’s Museum at Navy Pier. Annað er ekkert merkilegt og borgarbúar gera stundum grín að ferðamönnum sem taka myndir af sér á Navy Pier því það er langt frá því sem þeir telja alvöru Chicago.

Það er óþarfi að borða á Hard Rock eða viðlíka stöðum. Mér finnst líka ekki upplifunarinnar virði að fá sér Chicago deep dish pizzur, sem eru í mínum huga bara þykkt og blautt brauð. Eins finnast mér Chicago-style hot dog sem er hægt að kaupa út um allt ekki girnilegar. Hið vinsæla Garrett Popcorn er gott en dýrt og oft ekki biðarinnar virði, því röðin er oft löng.

Samgöngur í Chicago eru almennt þægilegar þó leiðin inn og út úr borginni geti valdið hausverk á álagstímum. Auðvelt er að ganga um borgina, enda nánast engar brekkur.

Lestarsamgöngur eru tvenns konar, annars vegar “The L” sem er almenna lestarkerfið og svo er hraðlestakerfið Metra sem fer í úthverfin og alla leiðina upp í Wisconsin.

Strætó gengur að sjálfsögðu um borgina, Divvy er hjólaleiga þar sem hægt er að ná sér í hjól og skila svo á öðrum stað í borginni, leigubílar eru út um allt Uber og Lyft hefur verulega vaxið ásmegin og eru þægilegur kostur. Þeir sem nota þjónustuna í fyrsta skiptið geta örugglega fundið $20 eða $30 dollara afsláttarmiða með því að leita aðeins (eins og Uber Promo Code).

Verslun: Gæti seint talist sérfræðingur í verslun og myndi mæla með að gestir borgarinnar versluðu bara á Amazon, Gilt eða MyHabit eða álíka á netinu áður en til borgarinnar er komið frekar en að eyða tíma í búðunum. Þeir sem vilja það þó ekki geta þó eins og í öðrum borgum auðveldlega fundið alla þá verslun sem hugurinn girnist. Á Michigan Ave í miðbænum sem kölluð er Magnificent Mile er fullt af búðum og skemmtilegt umhverfi. Mér þykir The Merchandise Mart flottasta verslunarmiðstöðina. Byggingin er frá frá 1930, við ána í miðbænum og eru þar margar hönnnunarverslanir og alls konar hönnunarviðburðir.

Í Merchandise Mart er hin tilkomumikla frumkvöðlamiðstöð 1871, kennd við ártal brunans mikla í Chicago, árið þegar menn þurftu að byrja upp á nýtt.

Image for post
Image for post
Með Betsy Ziegler forstjóra 1871 vorið 2018

Ef þú nennir ekki að kíkja í búðir þá mæli ég með að kíkja upp í 1871 í kaffi og sjá ólgandi sköpunarkraftinn hjá brjálæðislega flottum frumkvöðlunum. Þú gætir líka reynt að stíla inn á að kíkja á einhvern flottan viðburð hjá 1871 eða hitta á fólkið á bak við viðskiptahraðlana Techstars Chicago eða Impact Engine.

The story of the Great Chicago Fire of 1871 isn’t really about the fire. It’s about what happened next: A remarkable moment when the most brilliant engineers, architects and inventors came together to build a new city. Their innovations — born of passion and practical ingenuity — shaped not just Chicago, but the modern world. What started 140 years ago continues to this day.
Heimild: http://www.1871.com/about-1871/

@bergurebbi fór til Chicago og kunni að meta Merchandise Mart — eðlilega.

Þeir sem vilja fara í úthverfaverslunarmiðstöð geta keyrt í fjörutíu mínútur í vestur í Woodfield Mall og fengið sömu upplifun og Íslendingar í Florida með öllum típisku búðunum sem þar er að finna eins og Build-a-Bear Workshop, The Cheesecake Factory, The Disney Store eða LEGO store . Ef gera á alvöru fjölskyldudagsferð úr úthverfaverslunarferð má keyra í 50 mínútur í suðvestur frá Woodfield Mall og fara í Raging Waves vatnsrennibrautargarðinn.

Sams konar verslunarmiðstöðvar er að finna víðar, til dæmis fyrir norðan borgina og er þá hægt að samtvinna ferð þangað við ferð í skemmtigarðinn Six Flags Great America.

Image for post
Image for post
Veit ekki hvaða snillingi datt í hug að “ofangötulest” væru betri en neðanjarðarlest en þannig er það í miðbænum í Chicago — Mynd: https://iso.500px.com/25-most-photographed-cities-on-500px/

Chicago er almennt séð ekki hættulegri en aðrar stórborgir og eru glæpir borgarinnar lang flestir framdir á fáum afmörkuðum stöðum í borginni sem gerir alfaraleið yfirleitt nokkuð góða. Almenna reglan er að þú vilt ekki fara mikið suður af miðborginni, nema kannski helst ef þú ætlar að skella þér á leik með White Sox á Comiskey Park (U. S Cellular Field), en aðeins einn af fjórum hættulegustu blettum borgarinnar er ekki í suðurhlutanum, heldur vestur af miðborginni.

Stór hluti af suðrinu í i Chicago er hættulegur og ferðamenn hafa þangað lítið að sækja, sérstaklega eftir myrkur. Þar er University of Chicago og er það áhugavert svæði þó svæðin þar í kring séu ekki beisin og þeir sem hafa lært í U of C segja til dæmis:

Mér líður óvíða betur en í Hyde Park á suðurhlið Chicago. Það er hreint ekki hættulegt hverfi, þó nærliggjandi hverfi séu vafasöm, og gaman fyrir nörda að skoða háskólann.

Það er þó alveg ástæða til að fara varlega í suðrinu, sérstaklega á kvöldin, og ekki vera þar ein á ferli eða labba um nema þú vitir hvar þú ert og hvert þú ætlir.

Það er í raun ótrúlegt hversu mikill munur er milli hverfa í Chicago. Þeir sem vilja kynna sér hversu svakalegt sumt í suðrinu í Chicago er fá ansi góða innsýn með því að hlusta á tvo þætti af This American Life á NPR um Harper High School í suðurhluta Chicago.

Written by

Netfang: bjorgviningi@gmail.com // bý líka á Twitter á https://twitter.com/bjorgvinio

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store