Mynd: Bjarni Helgason

Í gamla daga höfðum við áhyggjur af því að dönskuslettur riðu íslenskunni að fullu. Þær áhyggjur eru sem betur fer fyrir bí en þegar krakkar eru farnir að leika sér á ensku höfum við áhyggjur að nýju. Krakkarnir hætta ekki að spila, þeir “líva leikinn”. Íslenskt barnaefni í sjónvarpi er nánast hætt að hafa hlutverk og í staðinn horfa krakkarnir á YouTube myndbönd á ensku. Þegar við bætist að við erum öll farin að tala við tækin á ensku þurfum við alveg örugglega að spyrna við fótum.

Nú þurfum við að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir stafrænan dauða íslenskunnar.

Úr takti við þennan dramatíska og harmþrungna inngang má fagna því að allir virðast gera sér grein fyrir vandanum og ætla að takast á við hann. Með ógnarsterkum stuðningi ríkisstjórnarinnar og samstarfi atvinnulífsins, háskólaumhverfisins og margvíslegra rannsóknarstofnana hefur náðst breið sátt um að snúa þessari þróun við.

Við ætlum að tryggja að íslenskan standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheimi. Markmið okkar er að stuðla að aðgengi almennings og atvinnulífs að nauðsynlegri máltækni svo framtíðin hljómi vel á íslensku. Til þess að ná þessu fram var samin mikil skýrsla, verkáætlun um máltækni fyrir íslensku á árunum 2018–2022, þar sem farið er yfir grundvallaratriði þess hvernig við ætlum að styrkja stafrænar stoðir íslenskunnar.

Úr verkáætlun um máltækni, síða 29: Samhengi gagna og máltækniverkfæra

Á grunni fyrrnefndar verkáætlunar skrifuðu nýlega Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Stefanía G. Halldórsdóttir, stjórnarformaður sjálfseignarstofnunarinnar Almannaróms, undir samning um rekstur Almannaróms á miðstöð um máltækni. Það hefur verið frábært að sjá hvernig hið opinbera, með menntamálaráðuneytið í broddi fylkingar, atvinnulífið, með SA í forgrunni, og háskólarnir hafa verið einhuga um að þetta mál sé lykilatriði fyrir okkur sem þjóð að vinna að.

Nú þarf að skipuleggja innviði verkefnisins, hefja starf miðstöðvar um máltækni, kynna máltækni fyrir fyrirtækjum og stofnunum og síðast en ekki síst koma á samstarfi við erlend fyrirtæki sem þróa máltæknilausnir. Þar eru öll stóru tæknifyrirtækin mikilvægir samherjar. Google er með Assistant, Amazon með Alexa, Samsung með Bixby, Apple með Siri, Microsoft með Cortana og Translator og til viðbótar berast fréttir af því að Facebook sé að undirbúa máltæknilausnina Aloha.

Við höfum unnið sigra í þessum efnum en meira þarf til. Þegar Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands heimsótti Microsoft nýlega var tilkynnt að íslenska verði eitt af rúmlega 60 tungumálum sem gervigreindarþýðingarvélin Microsoft Translator mun bjóða upp á. Þetta er stór áfangi og alls ekki sjálfsagður. Með hliðsjón af þeim veruleika að íslenska er langt því frá eitt af 60 stærstu tungumálum veraldar er ljóst að það þarf talsvert átak og sameiginlegan slagkraft til að tryggja að íslenskan okkar sé eitt þeirra tungumála sem tekið er til greina í svona tóli. Translator er einn fyrsti sigurinn en fleiri slíkum þarf að ná svo vel sé.

Undirstöður íslensku tæknialdarinnar hafa verið treystar og það eru spennandi en krefjandi íslenskutímar framundan. Hið opinbera hefur tryggt fjármögnun verkáætlunar um máltækni. Framboð á námi í máltækni hefur verið tryggt með samstarfssamningi Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík um meistaranám í máltækni. Atvinnulífið þar að hefja smíði eigin máltæknilausna og öll þurfum við að tryggja að við náum athygli stóru tæknifyrirtækjanna úti í heimi. Þetta tryggir að á endanum þurfi íslenskan ekki að líva leikinn.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store