Skilti á glugga veittingastaðar í Chicago — Mynd: Ariel Goldfarb

Er vit í að Ísland losni alveg við seðla og klink?

Þegar Íslendingar voru spurðir árið 2013 hvort þeir notuðu reiðufé sagðist meðalmaðurinn nota reiðufé átta sinnum í mánuði. Þegar spurt var í hvaða tilfellum fólk notaði reiðufé var langefst á blaði að borga í stöðumæla — svo kom leggja.is og þá breyttist það.

Alveg eins og við vissum ekki að við vildum iPad áður en við vildum öll iPad þá vissum við ekki að leggja.is appið gætið losað okkur við það sem við héldum að við þyrftum helst á reiðufé á að halda í. Í hvað, annað en stöðumæla þurfum við á reiðufé að halda — og hvernig geta tæknilausnir leyst það vandamál betur en reiðufé gerir í dag?

Þegar fólk er spurt hvort seðlalaust Ísland sé þeim að skapi segjast flestir vilja halda í seðlana. Það er viðbúið því með því að segja já við spurningunni væri fólk einfaldlega að samþykkja að missa eitthvað án þess að vita hvað kæmi í staðinn. Ekkert fyrir eitthvað, sem við vitum ekki hvað er, hljómar í flestra eyrum sem frekar dapur díll, óháð því um hvað er rætt.

Bönnum þá bara stóru seðlana

Um daginn skilaði starfshópur efnahags- og fjármálaráðherra um umfang skattundanskota niðurstöðum. Hópurinn fjallaði jafnframt um hvaða skorður megi mögulega reisa varðandi notkun reiðufjár, við greiðslu launa og kaup á dýrum hlutum með hliðsjón af lögum og reglum í nágrannaríkjum eins og það var orðað í fréttatilkynningu.

Vinnan sem slík vakti litla athygli en tillaga um að taka úr umferð stóru seðlana, fimm- og tíuþúsund króna seðla, til að sporna gegn skattundanskotum var harðlega gagnrýnd og fór vægt til orða tekið illa ofan í landann.

Vart má draga þá ályktun að stóru seðlarnir séu Íslendingum svona mikilvægir heldur frekar að fólki líkaði ekki að það væri verið að banna fólki eitthvað sem það á kost á í dag. Í góðri nýlegri spurningakönnun frá hollenska bankanum ING kom fram að einungis 6% evrópskra neytenda sögðu það myndi hafa áhrif á fjármál þeirra ef stærsti seðillinn væri tekinn úr umferð. Ekki þyrfti að koma á óvart að hlutfallið væri lægra á Íslandi ef spurt væri um 10.000 króna seðilinn sem fáir sjá, þekkja eða nota.

Vandamál umræðunnar hér var að seðlaleysi var rætt á forsendum banns frekar en hagræðis. Í stað þess að sýna fólki fram á hagsmuni þess, og þjóðarinnar í heild, af því að stuðla að seðlaleysi var einfaldlega lagt til að taka eitthvað af fólki sem það hefur í dag. Sagan endaði svo með því að ráðherra skrifaði að samfélagið [væri] ekki tilbúið í svo róttæka hugmynd og það að taka stóru seðlana úr umferð hafi einfaldlega verið hugmynd en ekki eitt af aðalatriðum tillagnanna.

Seðlaleysið var rætt á forsendum banns frekar en hagræðis í stað þess að sýna fólki fram á hagsmuni þess sjálfs, og þjóðarinnar í heild, af því að stuðla að seðlaleysi samfélagsins

Seðlarnir kosta sitt

Ef við heimfærum tölur bandarískrar rannsóknar um kostnað seðla má áætla að hver Íslendingur beri beinan 25 þúsund króna árlegan kostnað af seðlum á ári og beri um 65 þúsund króna kostnað vegna svartrar atvinnustarfsemi. Kostnaður seðlanna fyrir samfélagið í heild, um 1,5% af vergri landsframleiðslu, er því ekki einungis af því að reka kerfið og seðlana sjálfa heldur einnig kostnaður af því að seðlar gera skattsvik möguleg sem væru illmöguleg án þeirra.

Úr rannsókn Fletcher/Tufts á kostnaði reiðufjár

Í Danmörku er samanburður kostnaðar milli reiðufjár og korta einfaldari en hér á landi því flestir nota debetkort og þarf því ekki að taka tillit til þess að kreditkortagreiðslur eru í eðli sínu lán. Í Danmörku kosta greiðslur með reiðufé að meðaltali um 115 kr. en greiðsla með debetkorti 48 kr.

Í Danmörku kosta greiðslur með reiðufé að meðaltali um 115 kr. en greiðsla með debetkorti 48 kr.

Kostnaðarsamanburður á Íslandi er flóknari en í Danmörku því vægi kreditkorta er verulegt á Íslandi, ólíkt Danmörku. Þegar Seðlabanki Íslands mat kostnað við greiðslur í tímaritinu Fjármálainnviðum árið 2016 greindi bankinn ekki milli debetkorta og kreditkorta sérstaklega. Bankinn lagði saman kostnað við debet- og kreditkort og mat sem 101 kr. á hverja greiðslu til samanburðar við 88 kr. við reiðufé.

Hvar eru allir þessir seðlar?

Þar til hinn frægi starfshópur ráðherrans komst í hámæli þá gerðu margir sér örugglega ekki grein fyrir því að tæpur helmingur alls verðmætis reiðufjár á Íslandi er í formi 10.000 króna seðla, seðla sem fæstir kannast við að eiga í veskinu eða hafa yfir höfuð séð. Til viðbótar eru 5.000 kr. seðlar tæp 40% og því seðlar minni en 5.000 krónur, seðlarnir sem við sjáum oftast, alls um 13% seðla í umferð. Í þessu ljósi er eðlilegt að fólk spyrji sig hvar allir þessir stóru seðlar eru?

Tæpur helmingur alls verðmætis reiðufjár á Íslandi er í formi 10.000 króna seðla

Af því má leiða líkur að vægi notkunar stærstu seðlanna í svartri starfsemi sé umtalsvert og þess vegna sé jákvætt að draga úr umfangi þeirra ef markmiðið er að draga úr skattundanskotum. Sama ályktun hefur grundvallað ákvarðanir eins og starfshópurinn lagði til í öðrum Evrópulöndum. Á næsta ári kveður €500 seðilinn og á Spáni og í Frakklandi hafa sem dæmi verið sett lög til að draga úr reiðufjárnotkun. Í Frakklandi er til dæmis ólöglegt að nota reiðufé í viðskiptum umfram €1,000.

Ýmsir hafa bent á jákvæð áhrif seðlaleysis. Eftir þýska hagfræðingnum Peter Bofinger er haft í Der Spiegel að með fullkomnu seðlaleysi geti fótunum verið kippt undan svartri atvinnustarfsemi, eiturlyfjasölu og tengdri starfsemi sem í dag reiðir sig algjörlega á órekjanlegt seðlaumhverfið.

Hvernig liti seðlalaust Ísland út?

Einfaldasta leiðin til að svara því hvernig seðlalaust Ísland liti út er að horfa til Svíþjóðar. Reiðufjárhlutfall á Íslandi er um 2% en í Svíþjóð nálgast það 0,5%. Seðlar eru nánast hvergi og landið verður að fullu seðlalaust fyrir 2030 samkvæmt spá sænska seðlabankans.

Aðspurðir segja Svíar ekki hafa snert seðil í lengri tíma. Bankaútibú í Svíþjóð eru flest seðlalaus, fæstir veitingastaðir taka við reiðufé, og strætisvagnar taka ekki við reiðufé. Ferðamenn eru hvattir til þess að bera ekki reiðufé á sér í Svíþjóð og eru meira að segja áminntir við komuna til landsins að engin þörf sé á því fara í hraðbanka í Svíþjóð. Meira að segja kirkjusafnanir fara fram án reiðufjár og heimilislausir taka seðlalausu samfélaginu fagnandi með tæknilausnir til að taka við stuðningi við höndina.

Svíþjóð hefur orðið nánast seðlalaust á undanförnum árum — fyrst og fremst á forsendum tækniframfara og fjármálalausna. Lausna sem fólk velur að nota í stað þess að nota reiðufé. Nýir peningaseðlar voru teknir í notkun í Svíþjóð í október í fyrra en þó hafa fæstir Svíar séð þessa seðla með eigin augum — því nánast enginn notar seðla í landinu. Seðlum í umferð í Svíþjóð hefur fækkað um 40% frá hápunktinum árið 2007 og eru seðlar og mynt í umferð um 57 millarðar SEK, svipað og var árið 1990.

Möguleikar á að nýta stafrænar greiðslulausnir verða stöðugt betri og einfaldri. Ný greiðslumiðlunarreglugerð Evrópusambandsins, PSD2, mun sem dæmi stuðla enn frekar að hagræði stafrænna greiðslna.

Skilgreining á PSD2 í skýrslu starfshóps Fjármála- og efnahagsráðuneytisisins

Með PSD2 munu fyrirtæki önnur en bankar geta notað greiðslupípur bankakerfisins og tekið út, með þínu samþykki, beint út af reikningi í búð án þess að þörf sé á notkun greiðslukorts. Með þessu má draga enn frekar úr kostnaði greiðslumiðlunar neytendum til hagsbóta.

Sameiginlegir hagsmunir

Það kemur á óvart hversu stutt í samanburði við Skandinavíu Ísland er komið í að búa til seðlalaust samfélag. Ekki síst kemur á óvart hversu stutt við erum komin að öðlast sameiginlegan skilning á jákvæðum áhrifum þess.

Seðlaleysi með tilheyrandi hagræðingu, öryggi, skilvirkni, minni skattundanskotum og betri yfirsýn almennings yfir fjármálin getur verið sameiginlegt hagsmunamál almennings, launþegasamtaka, atvinnurekenda og fjármálafyrirtækja. Þrátt fyrir að fleiri hagsmunaaðilar ættu að geta sameinast um seðlalaust samfélag en í mörgum öðrum álitaefnum höfum við ekki séð sameiginlegan slagkraft um þessa sameiginlegu hagsmuni.

Við gætum, með því að taka okkur á, vel komist á sama stað og Svíþjóð á fáum árum. Það kallar á þennan sameiginlega slagkraft sem okkur hefur skort á undanförnum árum. Það þarf þó að byggja á að sýna landsmönnum fram á sameiginlegan hag fólks af seðlaleysinu fremur en með boðum og bönnum.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store