Hlaupárið 2020

Björgvin Ingi Ólafsson
6 min readFeb 11, 2021

Búinn að vera meiddur í nokkrar vikur og það er óþolandi. Þá fer maður aðeins að velta fyrir sér síðasta hlaupári.

Skrifa þetta 98% fyrir sjálfan mig til að fletta upp síðar og sjá hvernig þetta eldist og 2% fyrir allra hörðustu Strava kudosara. Aðrir hafa að öllum líkindum 0% áhuga á þessu.

Ég hljóp tæplega ríflega 1.800 km í fyrra eftir tæpa 800 km árið áður og fyrra ársmet rúmir þúsund kílómetrar. Þetta byrjaði rólega, fór aðeins af stað í vetrarfríinu á Tenerife og svo byrjaði af krafti í seinni hluta marsmánaðar þegar Covid leiðindin voru alveg að gera út af við mig.

Hlaup í kílómetrum eftir mánuðum 2020

Hafði mikil áhrif að nýta tímann að taka “Hilluhlaup” með Hildi sem var frábært stund okkar saman.

Ár síðan fyrsta Hilluhlaupið fór fram

Ég var svo ansi duglegur í apríl og komst allt í einu að því að ég væri kominn í form. Ég ákvað einn daginn að í stað þess að fara að hlaupa með Hildi í kerrunni eins og ég hafði mikið verið að gera og hlaupa þess í stað einn hálft maraþon og reyna að fara eins hratt og ég gæti.

Ég hljóp þá hálft maraþon og í því hlaupi bætti ég minn besta tíma í 5K, 10K og hálfu. Ég var kominn í óvenju gott form og það hvatti mig til að setja mér einhver markmið.

Um svipað leyti hitti ég hann Gauta Álftanesshlaupara sem sagði mér að hann hefði hlaupið maraþon nokkrum dögum í fertugsafmælisgjöf. Þá fattaði ég að yrði sirka maraþongamall þegar Reykjavíkurmaraþonið færi fram og því væri tilvalið að hlaupa maraþon þegar maður yrði einmitt maraþongamall.

Ég hef á undanförnum árum skokkað hálft maraþon, þó með stöðugri bætingu milli ára, fyrir Guggu vinkonu og nú fór ég í að safna fyrir ferðasjóðinn hennar alveg eins og óður maður.

Eins og ég skrifa um í þessum pistli sem ég tengi við að ofan þá gekk sú söfnun vel. Ég var gjörsamlega óþolandi, böggandi fólk í margar vikur og stóð uppi sem sá sem safnaði mestu þetta árið og safnaði um 1.400 þús fyrir Guggu inn á Hlaupastyrk.

Ekki Reykjavíkurmaraþon HHHC

Þegar ég datt í form sýndist hinum frábæra ofurpeppara Pétri Ívars að ég gæti skotast með brjálæðingunum í HHHC og ég byrjaði að mæta einstaka sinnum eldsnemma á laugardagsmorgnum. Þar er hlaupið langt og hratt. Þessar æfingar voru léttar fyrir margar þarna en alveg þannig að ég þurfti að hafa svolítið fyrir þeim sem er bara fínt. Myndi gjarnan vilja ná að mæta oftar og stefni að því á árinu. Mætti á fyrstu HHHC æfinguna í fínu formi 1. ágúst en var samt örugglega í lélegasta mforminu af þessum nöglum.

HHHC æfing 1. ágúst

Þessar æfingar voru léttar fyrir margar þarna en alveg þannig að ég þurfti að hafa svolítið fyrir þeim sem er bara fínt. Myndi gjarnan vilja ná að mæta oftar og stefni að því á árinu.

Þetta leiddi svo til þess að ég hljóp með Pétri og HHHC í Ekki Reykjavíkurmaraþoni HHHC á deginum sem alvöru þonið átti að fara fram. Það var geggjað.

Allt um það hlaup hér.

Árið sem ég varð hlaupari

Eiginlega má segja að ég hafi orðið hlaupari 2020. Ég bætti mig fullt, varð duglegri en nokkru sinni og hafði meira gaman af þessu en nokkru sinni. Ég var allt í einu búinn að kaupa mörg pör af hlaupaskóm; utanvegaskó, “hlaupahratt skó”, venjulega skóna og naglaskó. Ég fór að mæta í utanveghlaup og hljóp meðal annars yfir Snæfellsjökul og skemmtilegt Haukahlaup um holt og hæðir í Hafnarfirðinum.

Ég hef farið úr því að samþykkja enga vinarbeiðni á Strava í að skrifa smá umsögn um hverja æfingu og verða voða glaður með öll komment og kudos.

Ég held vel utan um hvernig ég er að hlaupa og komnir nokkrir góðir flokkar. Í fyrra voru til dæmis hlaupin 10 Naglahlaup, 11 Myrkraverk, 11 Hilluhlaup, 35 Bestuhlaup og alls 87 Fílahlaup. Þetta þýðir 10 sinnum á nöglum, 11 sinnum eftir að dimman dettur á (eða sól ekki risin), 35 sinnum hef ég hlaupið og hlustað á hlaðvarpið Besta platan og 87 sinnum á hlaðvarpið Fílalag. Auðvitað mjög eðlilegt að telja þetta allt.

Mynd sem var deilt í HHHC hópnum og mér fannst helvíti fyndin

Ég mætti í eitt 10km hlaup og bætti mig um 4 mínútur milli ára og hljóp maraþon öðru sinni og bætti mig um hálftíma. Af þessu má dæma að ég átti eitthvað inni og hafði í raun aldrei verið í neinu hlaupaformi.

Þegar ég var sem duglegastur á sumarmánuðum var prógrammið frekar klassískt. Tók eitt langt laugardagshlaup, tók eina æfingu sem var eitthvað bland af sprettum, píramída eða slíku og svo eina tiltölulega hraða stutta æfingu og svo jogg inn á milli.

Síðustu vikur og mánuði hafa hlaupaæfingar ekki verið í forgangi og hafa því fókuseraðar æfingar aðeins vikið fyrir því að ná að komast út. Það er því aðeins minna um verulega löng hlaup, minna um hraðaæfingar, sem eru líka leiðinlegar í lélegri færð. Ég hef fyrst og fremst glaðst yfir því að komast eitthvað út að leika.

Hlaupárið 2021

Núna stefni ég að því að vera í fyrsta sinn duglegur að hlaupa allt árið. Ég er eitthvað aðeins meiddur en held að aðeins meiri rólegheit hafi bara gert mér gott. Hef verið að éta bólgueyðandi og hvíla og tók tvær æfingar um daginn og vonaðist til að vera orðinn góður en er ennþá ekki alveg nógu góður. Þarf líklega að hvíla í aðrar tvær vikur. Það að hafa tekið hlaup tvo daga í röð og þar af 19 km hlaup seinni daginn var líklega ekki frábær hugmynd. Læri af því. Fann meira að segja fyrir þessu helvíti í göngutúr í gær.

Ég er þó, miðað við Vo2max mælingu Garmin, í svipuðu og formi og ég var í fyrir ári og í lélegra formi en ég var í sumar. Örugglega lítið að marka töluna sjálfa en hlutallslega er þetta örugglega rétt. Ég væri því alveg til í að vera nokkrum stigum ofar en ég er í núna og vera kannski aftur stöðugt í 57 í sumar í stað þess að vera í 53 eins og núna.

Ég hef meira að segja sett mér (óraunhæf) markmið fyrir árið en fyrst og fremst þó að bæta mig í öllum vegalengdum og losna við meiðsli .

Óraunhæfu markmiðin eru 20/40/130/190 mínútur og þau eru öll svolítið utan seilingar miðað við formið núna.

Hlakka til hlaupársins 2021 og vona það veiti mér jafn mikla gleði og hlaupárið 2020. Fyrsta mál á dagskrá er þó að hvíla aðeins.

--

--