Jafnréttismál eru efnahagslegt stórmál

Ég fjallaði í góðum hópi um tækifærið sem felst í því að nýta krafta kvenna og karla til fulls á fundinum Ljónin úr veginum sem Íslandsbanki hélt í gær í samstarfi við Ungar athafnakonur.

Þarna vorum við Karen Ósk Gylfadóttir með erindi og svo sat ég í pallborði með Sigríði Margréti Oddsdóttur forstjóra Já, Frosta Ólafssyni framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, Salóme Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Startup Iceland auk Eddu Hermannsdóttur samskiptastjóra Íslandsbanka sem stýrði umræðunum. Þetta var gott stuð. Horfið endilega á allt saman en áhugafólk um framlag mitt geta spólað fram á 9:43.

Handritið mitt að ræðu gærdagsins er hér að neðan. Ég flutti þetta ekki nákvæmlega svona heldur var þetta meira ramminn að því sem ég vann með. Setti viðeigandi tengla hér og þar.

Komið þið sæl og blessuð

Hressandi að koma á eftir henni Karen. Flott hjá þér.

Mér sýnist þróunin milli þessa fundar og fyrri Ljónafundarins vera í sama takti og þróun launamunar kynjanna. Ef við höldum áfram á sama hraða þá verður staða kynjanna jöfn í launum og jafn margir karlar í salnum og konur á svona fundi eftir hundrað og sextán ár.

  • Í Kauphöll Íslands heita fleiri forstjórar Finnur en eru konur.
  • Á lista Harvard Business Review yfir bestu forstjóra í heimi heita fleiri Lars en eru konur.
  • Ef Viðskiptaráð Íslands væri hlutafélag hlutafélag þá myndi kynjasamsetning stjórnar og varastjórnar ekki uppfylla lágmarkskröfur um kynjahlutföll. 5 konur af 18 eða 28% í aðalstjórn og í varastjórn er hlutfallið enn vera 4 af 19 eða 21%.
  • Ef fjölgun kvenna í æðstu stöðum stórfyrirtækja í Bandaríkjunum verður með sama hraða áfram og verið hefur munu jafn margar konur og karlar stýra bandarískum stórfyrirtækjum eftir rúmlega 100 ár
  • Samkvæmt Kjarnanum er ein kona fyrir hverja níu karla í æðstu stöðum íslensks fjármálaheims
  • Á Íslandi er einn af tíu skipuðum hæstaréttardómurum kona

Þetta er náttúrulega bara rugl. Þetta er allt rugl.

Ruth Bader Ginsburg er alveg órúlega merkileg kona. Á Twitter má t.d. fylgjast með henni undir myllumerkinu #NotoriousRBG. Hún er 82 ára hæstaréttardómari í Bandaríkjunum og einn þriggja kvenna sem sitja í níu manna Hæstarétti. Eftir henni er haft. Höfum þetta bara á ensku svo hennar tónn skili sér.

“[W]hen I’m sometimes asked when will there be enough [women on the supreme court]? And I say ‘When there are nine.’ People are shocked. But there’d been nine men, and nobody’s ever raised a question about that.”

Þetta er nákvæmlega málið. Stundum er ágætt að stilla hlutunum á hvolf og spyrja okkur hvað það þýðir. Núverandi staða er óásættanleg og við þurfum einfaldlega að breyta algjörlega um kúrs og snúa hlutunum á hvolf.

Fjölmiðlafólk ætti stundum, já eða alltaf, að prófa að snúa kynjahlutverkunum á hvolf. Fjölmiðlafólk þarf auðvitað að tala miklu oftar við konur, en talið við karla um jafnréttismál og leitist við að finna konu þegar fyrsta hugsunin væri að fá sama kallinn og síðast.

Við hjá Íslandsbanka gerðum auglýsingu um daginn þar sem í drögum að handritinu átti strákur að horfa yfir salinn og pæla í hvaða stelpu hann ætti að bjóða upp í dans. Við snérum því við. Stelpan valdi. Auðvitað skiptir þetta litla dæmi engu máli í stóra samhenginu en það sem við sjáum — það er raunverulegt.

Uppáhalds dæmið mitt í þessum dúr er litli strákurinn sem spurði mömmu sína þegar Vigdís varð forseti „mamma, geta strákar líka orðið forsetar eða eru það bara konur“ sýnir okkur fáránlega skýrt hversu miklu máli skiptir að allir séu sýnilegir í samfélaginu.

Allir geti horft til fyrirmynda út um allt, tengt við þær, og stefnt að einhverju. Ef karlar eru einir í forgrunni þá breytist ekkert en það er okkar að breyta þessu.

Þið sem eruð hérna eruð klárlega búin að sannfæra ykkur um að á svona fundi sé þörf. Við sem stjórnum í íslenskum fyrirtækjum eigum að sjálfsögðu að tala sem oftast um jafnréttismál og hvernig við getum nýtt krafta okkar allra öllum til heilla. Við getum, og eigum, líka að segja frá því hvernig við erum að tækla þessi mál og hvernig við ætlum að, ryðja öllum ljónum úr veginum.

Þegar stjórnendur eru spurðir hvort þeir setji viðskiptavini í fyrsta sæti, hvort þjónusta skipti þá miklu máli eða hvort þeir setja jafnréttismál á oddinn þá svara allir játandi. Öll þessi fínu mál skora vel í könnunum, það eru allir með en það er ekki þar með sagt að það sé jafnt á orði og á borði.

Í könnun gamla vinnuveitanda okkar Frosta, McKinsey & Company, Women in the Workplace, sem ég hef á tilfinningunni að okkur verði tíðrætt um í dag kemur fram að ¾ fyrirtækja lýsa því yfir að forstjórar þeirra setji jafnréttismál á oddinn en að sama skapi trúir bara helmingur starfsmanna sömu fyrirtækja að forstjórinn setji jafnréttismál á oddinn og einungis 1/3 telur að þeirra næsti yfirmaður setji áhersluna á jafnrétti kynjanna.

***

Það myndi enginn þjálfari sætta sig við það að dómarinn kæmi rétt fyrir leik og segði við við þjálfarann ð hann mætti bara velja leikmennina úr helmingi hópsins síns — frekar en að velja þá bestu — við erum samt í raun að gera það í dag alls staðar á hverjum degi. Af hverju í ósköpunum ætti ég sem stjórnandi að sætta mig við það að nýta aðeins helminginn af liðinu?

Við hjá Íslandsbanka viljum velja bestu úr öllu liðinu og vera brimbrjótar bæði umræðu og aðgerða í þágu þess að nýta krafta okkar allra, öllum til heilla. Við leggjum mikið upp úr því að ungar konur og ungir karlar eigi kost á að blómstra og sanna sig með okkur. Við gerum þetta á margvíslegan hátt.

Ein stór yfirlýsing er að á vettvangi framkvæmdastjórnar er engin sérstök jafnréttisnefnd. Jafnréttismál eru ekkert rædd á neinum aukafundum heldur rædd á okkar vettvangi eins og hver önnur mikilvæg mál. Þetta skiptir máli, bæði í okkar starfi og sem yfirlýsing til okkar fólks. Jafnréttisumræðan á ekkert að vera jaðarsett heldur er hún mikilvægur þáttur þess að ná árangri.

Á öllum stjórnunarstigum í Íslandsbanka er kynjahlutfall nokkuð jafnt — 55% deildarstjóra eru konur, 45% forstöðumanna eru konur og í framkvæmdastjórn eru fimm karlar og fjórar konur þar af bankastjórinn auðvitað.

Íslandsbanki hlaut gullmerki jafnlaunavottunar PwC sem er veitt fyrirtækjum þar sem launamunur kynja er innan við 3,5%. Þeir sem hafa lært tölfræði gera sér grein fyrir því að það getur verið ómögulegt að svona munur sé 0% en við þurfum þá að spyrja okkur ef munurinn getur ekki verið 0% af hverju er munurinn alltaf í aðra áttina, þó allt undir 3,5% sé lítill munur þá er eitthvað bogið ef hann er alltaf í aðra áttina. Við erum alltaf að pæla í þessu og vinna í þessu.

Íslandsbanki er með skipulögð þróunar- og mentorship námskeið fyrir ungt og efnilegt fólk, bæði konur einar og sér en einnig þróunarnámskeið fyrir unga stjórnendur og efnilegt fólk af báðum kynjum.

Við horfum á málin með kynjagleraugum. Við leitumst til dæmis við að bæði konur og karlar séu í forgrunni á öllum okkar stærri fundum hvort sem þeir eru innanhúss eða með viðskiptavinum.

Karen tæklaði vel að þó að tengslanet kvenna sé mikilvægt þá þurfa karlar að átta sig á því að það er þeirra hagur að kraftar kvenna nýtist og við tæklum þetta allt saman og karlar séu dregnir inn í umræðuna.

Í McKinsey skýrslunni títtnefndu sögðu 38% kvenna að þeirra mentorar væru karlar en 63% karla. Með hliðsjón af því hversu margar konur og karlar eru í æðstu stöðum þá er ljóst að konurnar hafa úr miklu færrri möguleikum að velja ef þær geta bara sótt til kvennanna sem stjórna sem sinna mentora. Konur eiga að geta fengið mentorship frá körlum og tengslanet kvenna og karla þarf að ná útfyrir eigið kyn. Einfalt, ekki satt?

Ég hef skilning á því að konur mentori aðrar konur og það er mikilvægt. Ég hef unnið undir stjórn sterkra kvenna. Núna er Birna Einarsdóttir minn yfirmaður og hún er á engan hátt síðri mentor fyrir mig sem kona í samburði við það ef hún væri karl — þvert á móti.

Ég lít á það sem miklu stærri sigur fyrir mig persónulega ef ég næ að hjálpa ungri konu en ungum strák því ég þarf að leggja aðeins meira á mig til að skilja hennar sjónarmið, markmið og áherslur en einhver sem hefur gengið í gegnum það nákvæmlega sama og ég.

Það er nefnilega eitt sem við karlar þurfum að vera brjálæðislega meðvitaðir um. Það er að við erum forréttendindahópur og við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því. Forréttindi eru nefnilega ósýnileg. Við sem erum hraust pælum aldrei í því að við séum ekki fötluð. Þeir sem eru fatlaðir pæla alveg pottþétt í því — og það oft. Ég fékk ákveðin forréttindi í vöggugjöf og mér er tamt að gleyma því.

Þegar ég skilgreini mig þá er ég einfaldlega Íslendingur.

Þú skilgreinir þig sem íslenska konu.

Aðrar gætu skilgreint sig sem fatlaðar íslenskar konur.

Skiljiði hvað ég er að fara?

Yfirburðir eru ósýnilegir og hvernig við skilgreinum okkur segir ótrúlega mikið. Ég skilgreini mig ekki út frá mínum ósýnilegu forréttindum en ef það vantar upp á að tilheyra forrétindahópnum skilgreinum við okkur út frá þeim. Auðvitað skilgreini ég mig ekki sem heilbrigðan íslenskan hvítan karlmann því það eru einfaldlega allt þættir sem stuðla að ósýnilegum samfélagslegum yfirburðum og ég þarf ekkert að hafa áhyggjur af þessu en ef það vantaði upp á þessi forréttindi hefði það áhrif á mig. Ég er ég og ég er Íslendingur, ekkert flóknara. Allir hóparnir sem ég tilheyri eru meira og minna hópar sem hafa orðið ofan á í gegnum tíðina.

Þessu þurfum við karlar að gera okkur grein fyrir og við þurfum að gera okkar til að gera okkar til að skilja hvað það þýðir að vera ekki í þessum forréttindahópi.

Núna í mars er að koma aftur til starfa eftir fæðingarorlof ung, bráðskörp og öflug stelpa aftur á sviðið okkar. Ég hringdi í hana um daginn og bar undir hana hugmyndir að því sem hún gæti byrjað að tækla þegar hún kemur til starfa, hversu hratt hún ætlaði að fara af stað og hvernig henni litist á að vera að koma aftur. Ég fann það alveg á henni að henni fannst rosalega gott að fá þetta símtal og vita að hún væri ekki öllum gleymd þó hún hafi farið á heimavígstöðvararnar í nokkra mánuði og okkur þætti hún alveg jafn öflug og efnileg og áður. Við buðum henni líka að taka þátt í prógramminu okkar fyrir ungt of efnilegt fólk á meðan hún var í fæðingarorlofinu, að sjálfsögðu þurfti hún þess ekki, en ef hún vildi kíkjá á 2–3 fundi þá var það algjörlega í boði.

Ég fann það á henni að þetta skipti hana máli. Þarna þurfti ég að gera mér grein fyrir því hvernig hún hugsaði og hvað skipti hana máli út frá þeirri stöðu sem hún var í.

Maður gerir þó ekki alltaf hlutina hundrað prósent. Þegarég var nýkominn aftur í bankann í fyrra, eftir að hafa verið í svolítið vúlgar samkeppnisumhverfi í Ameríku undanfarin ár varð ég hundfúll út í nokkra starfsmenn mína út af einhverju tiltölulega smávægilegu klúðri. Ég gerði hlutina bara eins og ég var vanur að utan og fannst það bara allt í góðu.

Það var ekki fyrr en mér var bent á það skömmu síðar að þetta fór mjög fyrir brjóstið á einni ungri konu sem vinnur með mér og henni leið bara afskaplega illa yfir því að hafa fengið svona gusu yfir sig. Þarna gerði ég mér ekki grein fyrir hennar stöðu, sjónarmiðum og tilfnningum og hefði getað gert miklu betur. Þarna horfði ég út frá heiminn frá mínum gleraugum eingöngu og mín hreinskiptni, sem virkar á mig, virkaði ekki á hana og ég gerði mér ekki grein fyrir því en ég lærði af reynslunni.

Jafnréttismál eru ekki mjúkt mál eða kaffiboðaspjall. Jafnréttismál eru brjálæðislegt efnahagslegt stórmál.

Ef kraftar kvenna væru nýttir til jafns við krafta karla þá bættust við 12 trilljóna heimsframleiðsla samkvæmt Women in the Workplace skýrslu McKinsey. Ef sama gildir fyrir Ísland og gildir fyrir heiminn væri landsframleiðsla Íslands 240 milljörðum meiri á Íslandi.

Ok, gefum okkur að staðan á Íslandi sé helmingi betri en heimsmeðaltalið — þá værum við samt að bæta 120 milljörðum við landsframleiðsluna okkar, sem myndi duga fyrir öllum útgjöldum menntamálaráðuneytisins, öllum útgjöldum Landspítala og við ættum ennþá tæpa 10 milljarða í afgang — á hverju ári.

Snúum hlutunum á hvolf. Látum til okkar taka. Bíðum ekki í hundrað ár. Lítum á jafnréttisbaráttuna sem stærsta og mikilvægasta framlag viðskiptalífins til eflingar þjóðarhags og þjóðarframleiðslu .

Pössum okkur á stilla up sigurliðinu, liði þar sem við veljum örugglega úr öllum bestu leikmönnunum sem eru í boði — en ekki bara helmingnum.

Áfram við öll — takk fyrir mig!

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store