Langþráð evrópsk sókn Draghi

Björgvin Ingi Ólafsson
5 min readOct 11, 2024

Það hefur gefið á bátinn. Framkvæmdastjórn ESB sér vanda. Hún þarf að styrkja samkeppnisstöðu og efla vöxt álfunnar. Sambandið hræðist að dragast frekar aftur úr í heimi þar sem pólitísk stefnumörkun og regluverk hefur mikil áhrif á slagkraft viðskipta og nýsköpunar. Staða álfunnar er veik og sambandið veit það.

Með þessa stöðu í huga lagði Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri Evrópu og fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, fram röð tillagna og hugmynda um betrumbætur á samkeppnishæfni ESB í veglegri skýrslu sem hefur víða vakið athygli.

Skýrsla Draghi var gerð að beiðni Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB og hefur hún þegar notað hana til að móta áherslur í vaxtarstefnu sambandsins.

Í skýrslunni er flaggað litlum framleiðsluþrótti, ófullnægjandi nýsköpun, veigalitlum fjárfestingum og takmörkuðum framleiðnivexti í Evrópu. Áhyggjur af grunnþáttum vaxtar og velferðar eru ærnar.

Víða hefur verið vakin athygli á þungum tóni skýrslunnar og réttilega verið bent á að í henni kemur fram að Evrópa hafi orðið eftirbátur bæði Bandaríkjanna og Kína í framþróun og slagkrafti. Draghi skýrslan hringir viðvörunarbjöllum fyrir álfuna og gerir um leið upp hvar og hvers vegna Evrópusambandið hefur brugðið af leið.

Áherslur skýrslunnar eru almennar. Í stað þess að einblína á stóru umbreytingarverkefnin (eða klisjurnar) eins og gervigreind eða hálfleiðara, tekur skýrslan meira á takmörkunum á vexti og fjárfestingum í fjölda iðngreina í heild í sögulegu samhengi.

Hún horfist í augu við þá áskorun að gæta bæði að sterku regluverki en varast um leið ofvöxt þess sama regluverks og gleyma ekki hvernig brúa má nýsköpunargatið sem Evrópa hefur skapað sér í þessu regluverki öllu. Þetta hafa reynst, og gætu reynst áfram, gagnkvæmt útilokandi úrlausnarefni.

Nýsköpunargat

Evrópskum frumkvöðlum sem vilja færa rannsóknir og þróun yfir í hagnýtingu reynist það erfitt. Frumkvöðlar glíma við sundraðan innri markað með flóknu regluverki og síðri fjármögnunarkostum en til dæmis í Bandaríkjunum. Í Draghi skýrslunni er nefnt að ekkert evrópskt fyrirtæki að markaðsvirði yfir 100 milljarða evra hafi verið stofnað síðustu hálfa öldina. Til samanburðar voru öll sex fyrirtækin, stofnuð á sama tímabili, með markaðsvirði yfir eina billjón evra stofnuð í Bandaríkjunum.

Að sama skapi er áhyggjuefni að í Evrópu eru bílaframleiðendur þrír veigamestu „fjárfestarnir“ í rannsóknum og þróun. Það er sama staðan og var uppi í Bandaríkjunum við síðustu aldamót. Í dag eru þrír tæknirisar í þessum sætum vestan hafs.

Loftslagsdrifið samkeppnisgat

Í Draghi skýrslunni er lögð áhersla á að stefnan í loftslagsmálum þurfi að taka meira tillit til samkeppnishæfni evrópskra (iðn)fyrirtækja. Í dag séu áherslurnar einfaldlega á að draga úr slagkrafti umfram það sem boðlegt er. Áherslan þurfi að vera á að stuðla að verulegum grænum vexti en draga um leið úr losun orkufreks iðnaðar. Ekki má gleyma því að samhliða því að ná markmiðum í loftslagsmálum þarf að tryggja samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja sem keppa við fyrirtæki frá öðrum mörkuðum sem lúta ekki sama umhverfisverndarregluverki og þau evrópsku búa við. Ef það verður ekki gert verður lítið eftir af þessum fyrirtækjum í Evrópu innan tíðar.

Fjármögnunargat

Fjárfesting í rannsóknum og þróun í Evrópu er of lítil til þess að efla nýsköpun og vöxt á pari við það sem gerist á samkeppnissvæðum.

Skýrslan kallar eftir fjárfestingum sem nema hátt í 5% af VLF ESB eða um 750–800 ma. evra á ári. Þetta hlutfall af VLF hljómar kannski ekkert svakalegt en er þó hærra hlutfall en í Marshall-áætluninni sem átti að bregðast við áskorunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Þó að þörfin sé rík hefur stærðin vakið spurningar.

Stjórnmálamenn hafa víða spurt sig hvort slíkt umfang sé einfaldlega raunhæft þegar áskoranir evrópskra þjóðhagsreikninga eru ærnar. Almennt gildir að þrýstingur er mikill á að draga úr útgjöldum. Auðvelt er að spá því að þessi fjárfestingaráform séu draumsýn sem verði aldrei að veruleika. Líklegt er að fjárfestingargatið sem mikilvægt er að brúa verði til staðar áfram, að minnsta kosti að hluta.

Regluverksgat

Í skýrslunni er bent á bæði mikilvægi einföldunar regluverks sem og aukins samræmis í regluverki, fjármögnunarfyrirkomulagi og stefnumörkun í regluverki milli landa. Hún leggur til að mótuð verði ný stefna sem tekur á þessu og tryggi jafnvægi milli þess að tryggja samkeppni milli landa og samræmis í regluverki þeirra og umgjarðar.

Skýrar línur von der Leyen

Draghi skýrslan og eftirfylgni von der Leyen hafa dregið línuna um það hvernig drífa á vöxt í þungamiðjuvaxtarþáttum eins og gervigreind og öðrum rótgrónari þáttum efnahagslífsins. Á grunni Draghi skýrslunnar hefur hún verið skýr um það hvernig megi draga úr hindrunum fjárfestinga og tryggja vöxt og nýsköpun í Evrópu til framtíðar.

Fyrirtæki í rótgrónari greinum þurfa að leggja áherslu á hvernig betur samþætt regluverk geri þeim mögulegt að koma hlutunum betur í verk, nýta fjármuni betur og tryggja að þekking þvert á álfuna verði betur nýtt. Með því væri hægt að ná að brúa þau göt sem fyrir eru — a.m.k. að hluta.

Frumkvöðlar þurfa að trúa, og upplifa, að þessar breytingar skapi tækifæri til sóknar af sama hraða og mögulegt væri á öðrum svæðum. Í þessari fögru framtíð næðum við að efla rannsóknir, þróun og nýsköpun þvert á evrópsk landamæri. Nýsköpunarfyrirtæki ættu, betur en áður, að geta drifið vöxt sinn áfram frá Evrópu í stað þess að flytja starfsemi þar sem áðurnefnd göt er ekki við að glíma.

Þó að þessar áherslur gætu styrkt Evrópu er ljóst að þau óbrúuðu göt sem við er að eiga eru stór og verða ekki brúuð á einni nóttu — hvað sem þessari löngu skýrslu líður.

Hvati vaxtarfyrirtækja til að huga að sinni framtíð utan Evrópu er enn til staðar og verður til staðar á meðan við öll þessi göt er að glíma. Tónninn sem er sleginn gefur manni þó von um að a.m.k. áttin breytist til hins betra og gatið minnki þá a.m.k. frekar en stækki.

Loka þarf götum

Evrópa á ekki marga sénsa eftir áður en hún dregst endanlega aftur úr. Staðan er nú vel kortlögð og framsýn ráð hafa verið gefin en loka þarf götum. Það reynir á hæfni álfunnar til að innleiða lausnirnar og sýna meiri slagkraft en nokkru sinni fyrr. Nýsköpun og vöxtur geta ekki beðið eftir pólitískum hráskinnsleik, þar sem reglugerðir sem áttu að vernda, kæfa nú þá þróun sem þær áttu að styðja. Framtíðin bíður ekki — hún mætir þeim sem grípa hana fyrst.

Með Notebook LLM græju Google er hægt að búa til hlaðvarp um efni sem þú lætur græjuna fá. Hér er hægt með því að skrá sig inn með gmail reikningi að hlusta á hlaðvarp (á ensku) um Draghi skýrsluna þar sem tveir stjórnendur sem ekki eru til ræða um skýrsluna. Finnst þetta góð leið til að kynna sér skýrsluna.

Birtist fyrst á Innherja á Vísi 10.október 2024 https://www.visir.is/g/20242632788d/langthrad-evropsk-sokn-draghi

--

--