Undanfarin ár hef ég, af meiri vilja en getu, hlaupið hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Ég ætlaði aldrei að hlaupa maraþon. Ég hef verið sannfærður um að það væri ekki gott fyrir mann auk þess sem ég myndi ég aldrei nenna að koma mér í hlaupaform til að geta það.

Ég skrifa þessu sögu maraþonsins míns aðallega fyrir sjálfan mig og svo eru kannski einhverjir sem eru alveg hlaupaóðir sem nenna að lesa þetta. Fyrir flesta aðra er þetta örugglega fáránlega óspennandi. Það er þá búið að vera þig við ef þú heldur áfram að lesa.

Síðasta vetur, góðglaður í góðra vina hópi lögðu ein sómahjón til að við myndum hlaupa saman maraþon í Chicago. Tillagan um að hlaupa með þeim í uppáhalds borginni hljómaði frábærlega á þessum tímapunkti. Ég skráði mig í lottóið og komst inn — hins vegar komst hvorugt áðurnefndu sómahjóna inn og því var ég að fara einn ef ég færi á annað borð. Mér fannst hálf hallærislegt að hætta við (lesist: gefast upp) og fór fljótlega að byrja að skokka.

Ég byrjaði að skokka í apríl þegar ég fór alls 40 km og fyrstu tvær vikurnar í maí hljóð ég hátt í 20 km hvoraviku. Ég ákvað þá að ég þyrfti smá spark í rassinn og ákvað að mæta á fyrstu æfinguna hjá Hlaupahópi Stjörnunnar um miðjan maí. Ég var búinn að fylgjast með hópnum úr fjarlægð á Facebook svolítið lengi og hélt satt best að segja að mér myndi ekki líka að mæta í svona hlaupahóp en það að ganga í hlaupahópinn var ótrúlega mikilvægur hluti þess að láta marþaonið verða að veruleika.

Eftir fyrstu æfinguna með Hlaupahópi Stjörnunnar

Æfingarnar hjá Hlaupahópnum voru fjórum sinnum í viku. Á mánudögum var sprettæfing, létt æfing á miðvikudögum, brekkusprettir í Heiðmörk á fimmtudögum og svo löng æfing á laugardögum. Ég mætti ekki á allar æfingar en reyndi að fylgja vikuplani nokkurn veginn þó ég æfði stundum sjálfur. Hugsa ég hafi mætt svona 70% á mánudögum og 50% á fimmtudögum en talsvert sjaldnar á hinum dögunum.

Ég var í miklum ham framan af og jók æfingataktinn talsvert frá maí til júní. Ég hljóp hálft maraþon í Miðnæturhlaupinu í júní á 1:45 sem var sjö mínútum hraðar en ég hljóp í Reykjavíkurmaraþoninu árið áður og átti samt mikið inni og alveg viss um að ég gæti hlaupið á 1:40 í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég hljóp Miðnæturhlaupið á lágum meðalpúls, hélt hraða vel og leið bara mjög vel.

Miðnæturhlaupið: Púls og hraði

Í júlí hélt ég svo áfram af miklum krafti. Frá þriðju til fjórðu viku í júlí jók ég kílómetra úr 50 í 70 og var í rosalegu stuði. Í frábæru veðri tók ég tvær æfingar í röð sem áttu að vera sirka 10–12 kílómetrar en með fjögur kíló af góðri stemmningu í farteskinu varð hvor æfing um sig um 20 kílómetrar. Þá kom vesenið. Auðvitað átti ég að vita að eina vitið væri að fylgja planinu mínu og auka æfingaálag smátt og smátt en ekki bæta 20 kílómetrum við á einni viku. Þetta fór enda svolítið illa.

Fjöldi kílómetra á mánuði í maraþon undirbúningi

Eftir þessa ofurviku fór ég í frí til útlanda og á fyrstu æfingunni fékk ég svakalega í mjöðmina og gat varla/ekki hlaupið. Eftir nokkra kílómetra þá þurfti ég að haltra upp á hótel. Ívar þjálfari lagði til að ég myndi hvíla og næstu þrjár vikur voru allar æfingar eiginlega bara þannig að ég fór út að hlaupa til að athuga hvernig skrokkurinn væri. Svarið við því var að hann var eiginlega ómögulegur og ég var með verulega verki í mjöðm og svolítinn verk á ýmsum öðrum stöðum.

Eftir lélegar æfingar og lemstraðan skrokk í nokkrar vikur var komið að hálfu maraþoni í Reykjavíkur-maraþoni Íslandsbanka. Ég hélt að skrokkurinn væri að braggast og átti þetta að verða PB hlaup. Markmiðið var að bæta tímann frá Miðnæturhlaupinu verulega.

Í stuttu máli gekk hlaupið alveg ömurlega og mér leið illa frá fyrsta kílómetra. Púlsinn var svakalega hár allan tímann, hljóp 95% af tímanum í zone 5, og náði ekki að hlaupa hraðar en í Miðnæturhlaupinu þó brautin sé miklu léttari og ég kominn lengra inn í æfingaplanið. Ég endaði á 1:46, miklu hægar en markmið um að vera undir 1:40 og bara í mjög lélegu standi þegar ég kom í mark.

Ég fór og lét lækni tékka á mér aðeins eftir Reykjavíkurmaraþonið því ég á smá sögu um hjartarugl en hann var sæmilega brattur en sagði að ég væri með smá vesen í svokölluðum Sinus Node og ég þyrfti því að hita vel upp þegar ég hleyp. Sagði að ég þyrfti hálfpartinn “kick-starta” hjartslættinum, hita vel og hratt upp og róa mig svo niður til að koma í veg fyrir að púls fari strax svona hátt eins og gerðist í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég hef stundum lent í því á æfingum að púls hefur rokið upp úr öllu valdi á léttu skokki og ég fattaði ekkert hvað var í gangi. Það var semsagt út af þessu og það var hægt að stýra þessu og þetta var ekkert til að hafa áhyggjur af í raun.

Í september var mjöðmin að lagast eftir að ég varð duglegur að mæta til Guðbrandar nuddara sem hjálpaði mér mjög mikið að jafna mig. Ég mætti nokkuð vel á æfingar og tók nokkur löng hlaup en munur milli vikna var full mikill, frá 30 til 80 km.

Ég hljóp mitt besta 10 km hlaup í Globeathon hlaupinu í september. Hljóp með Unni í Hlaupahópnum ríflega 25 km og svo einu sinni einn yfir 32 km, í roki og rigningu á laugardagsmorgni. Hefði samkvæmt plani þurft að taka 3–4 löng hlaup en náði því ekki. Náði ekki að mæta eins oft og ég hefði viljað á brekkuæfingarnar en mætti eiginlega alltaf á mánudagssprettæfingarnar.

Mér var farið að líða talsvert betur og formið var alveg sæmilegt. Eftir langa langa hlaupið mitt var ég sannfærður að ég gæti alveg hjakkast þetta maraþon.

Við hjónin mættum til Chicago á fimmtudegi fyrir hlaupið á sunnudegi. Leið bara vel, ágætlega stemmdur. Byrjuðum á því að fara á expoið sem var bæði svakalega stórt og rosalega vel skipulagt. Veðurspá var ágæt þó líklega yrði svolítið heitt seinni hluta hlaups.

Drakk “karbólód” fjórum sinnum fyrir hlaup en drakk síðasta skammtinn á laugardegi í staðinn fyrir á föstudegi.

Ég svaf ágætlega fyrir hlaup enda hafði ég nánast haldið íslenskri klukku fram að hlaupi og fékk yfir 8 tíma svefn þó ég hafi vaknað kl 5.

Ég var búinn að ákveða að hlaupa sem mest á púls í hlaupinu til að forðast ruglið sem einkenndi Reykjavíkurhálfmaraþonið mitt og stefndi á að hlaupa negative split, lokatíma 3:43 og hlaupa samkvæmt þessu plani sem Agnar, æðstistrumpur hlaupahóps Stjörnunnar, hafði bent mér á. B markmiðið var þó að vera undir fjórum tímum en aðalmálið var að njóta þess að taka þátt í mínu fyrsta maraþoni.

Hlaupadressið í Chicago

Vaknaði, klæddi mig og borðaði morgunmat með slatta af hlaupanördum á hótelinu eldsnemma morguns. Skokkaði svo 1 km að startinu, hitaði aðeins upp með smá sprettum og svo bara slappaði maður af fram að starti.

Fór svo af stað. Strax á fyrsta kílómetra þurfti ég að pissa og stökk til hliðar í undirgögnum og pissaði. Fannst tíminn líða mjög hratt framan af, mikil stemmning. Mér var mjög umhugað um að fara ekki of hratt af stað og hljóp á mjög lágum púls. Fattaði svo eftir 8 km að Garmin GPS var í algjöru rugli að ég var ekki búinn að hlaupa 10 km þá þó Garmin segði það heldur bara 8 km. Í stað þess að vera í kringum 5:20 eins og ég hélt ég væri að hlaupa á, því það var það sem Garmin sagði mér þá var ég á yfir 5:35. Mér leið a.m.k. mjög vel. Svolítið merkilegt að fatta að háhýsin og e.t.v. fólksfjöldinn var að rugla GPS verulega þannig að á því var í raun mjög lítið græðandi. Út úr Garmin kom til dæmis í hlaupinu að ég hefði hlaupið 46 km og þar af 1 km á 3 mínútum og 5 km á ríflega 18 mínútum. Það var augljóslega ekki þannig.

Mér leið áfram vel í hlaupinu og hélt mig við það að hlaupa á þeim púls sem mér var uppálagt. Sá púls var frekar lágur þannig að ég var nokkuð viss um að ef ég héldi því myndi mér líða vel. Markmiðið var að gefa aðeins í á seinni hlutanum.

Ég tók fjögur gel á leiðinni og stoppaði á hverri einustu drykkjarstöð mjög meðvitaður um vökvatap í hitanum. Ég fór svo að pissa þrisvar eða fjórum sinnum í hlaupinu og velti fyrir mér hvort karbólódið á laugardegi væri að koma í bakið á mér þar.

Mér gekk svona sæmilega að gera það en þegar ég átti að fara enn hraðar samkvæmt planinu var orðið mjög heitt og ég sömuleiðis orðinn aðeins stífari. Það var aðeins meira ströggl á km 35–40 og hægðist þá á mér.

Kom á endanum í mark á 3:57, hægar en ég ætlaði mér en þó innan fjögurra tíma. Leið bara vel þegar ég kom í mark, teygði ágætlega, fékk mér einn bjór, hitti á Evu og gekk bara mjög glaður upp á hótel.

Aðal lærdómurinn af þessu var að þetta var skemmtilegt. Það var gaman að takast á við þetta og klára. Held líka það hafi komið Evu smá á óvart hvað henni fannst svakalega gaman að vera á hliðarlínunni og taka þátt í þessu með mér. Var líka gaman að fá um 300 læk og fjölda kveðja á Facebook. Held ég varla fengið önnur eins viðbrögð á Facebook.

Margir hlauparar voru búnir að segja við mig að það er ekki sjálfgefið að ég geri þetta bara einu sinni þó ég hafi ekki gert ráð fyrir því fyrirfram að gera þetta aftur. Manni langar svolítið að læra af þessu og gera betur. Sá það til dæmis að Villi sem er í Hlaupahóp Stjörnunnar og ég hafði á tilfinningunni að gæti hlaupið svipað hratt og ég fór á 3:43, tímanum sem ég stefndi á, sömu helgi í hlaupinu sem Hlaupahópur Stjörnunnar fór saman í. Hugsa ég hefði grætt mikið á því að hlaupa með einhverjum sem kunni betur að pace-a sig en ég, hafandi gert þetta áður.

Ég hugsa að ef ég geri þetta aftur myndi ég líka gera styrktaræfingar. Ég gerði engar styrktaræfingar í öllum undirbúningnum en held það hefði hjálpað mér.

Ég sé líka að það var algjört lykilatriði að ganga í Hlaupahóp Stjörnunnar. Þar er vinalegt og reynt fólk sem leiðbeindi mér mjög vel með alls konar hluti og auk flottra þjálfara sem veittu mjög góð ráð og aðhald. Ég vissi ekkert um hvernig á að undirbúa maraþon áður en ég mætti. Ég vissi ekkert um hversu mikið ætti að hlaupa, nuddsár, táeymsli, gel, vatnsinntöku, eða hvaða nafni allir þessu litlu hlutir sem skipta máli í hlaupi nefnast — en Hlaupahópurinn hjálpaði mér að átta mig á öllu þessu smátt og smátt.

Hef líka velt fyrir mér, ef ég geri þetta aftur, hvort ég ætti að æfa eins og ég gerði, með hefðbundna laginu með blöndu af löngum rólegum hlaupum og sprettum eða minnka hlaup og auka lyftingar í takti við Unbreakable Runner bókina. Sú bók gagnrýnir hefðbundna aðferðafræðina við hlaupaæfingar og segir…

Unbreakable Runner challenges conventional training tenets such as high mileage and high-carb diets to show how reduced mileage and high-intensity training can make runners stronger, more durable athletes and prepare them for races of any distance.

Ég er sannfærður um að ég geti hlaupið 10 km hraðar en 45 mín og hálft á sirka 1:40. Ég trúi að ég gæti hlaupið maraþon á ríflega 3:40. Spurningin er bara hvort ég reyni að komast að því eða láti staðar numið. Eins og titillinn segir, þetta var maraþon #1.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store