Við vinirnir spræk í markinu að hlaupi loknu

Maraþon #2 — Ekki-RM HHHC

Björgvin Ingi Ólafsson

--

Í dag, á Reykjavíkurmaraþondaginn 22. ágúst, hljóp ég mitt annað maraþon, þó ekki RM, því það var Ekki-RM HHHC. Þetta er sagan af því.

Ég skrifaði um maraþon #1 í Chicago árið 2017 og hef sagt frá aðdraganda hlaupsins í ár sem og síðustu dögunum fyrir hlaup. Venju samkvæmt er því allt frekar vel skrásett.

Í stuttu máli sagt var þetta alveg frábær dagur, brjálæðislega skemmtilegt og planið gekk upp. Til gera þetta allt saman enn betra þá er ég efstur í áheitasöfnuninni sem er rosalega skemmtilegt. Má endilega bæta við þar alveg þar til lokar.

Stefni nú í 1,5 markmið eða 1.500.000. Hægt að bætast við í nokkra daga eftir hlaup.

Plan dagsins var að hlaupa RM hringinn með hlaupahópnum HHHC sem ég hef verið svo heppinn að kynnast. Þarna eru brjálaðir, mest megnis, miðaldra gæjar sem hlaupa fáránlega hratt. Þeir eru þó eiginlega jafn næs og þeir eru hraðir. Búið var að stilla upp skotheldu plani, drykkjarstöðvar, hjólandi aðstoðarfólk, tímataka og sóttvarnaráðstafanir. Allt eins og best verður á kosið.

HHHC hlauparar í EKKI-RM HHHC 2020

Veðrið var gott, logn, smá sól og lagt í hann klukkan sjö þannig að umferð var ekki að trufla okkur á leiðinni.

Eins og ég gerði skilmerkilega grein fyrir í undirbúningspistlinum var planið að fara með henni Hrafnhildi og Jóni Inga á 4:53 og sjá svo til þegar það væru tíu kílómetrar eftir hvort ég myndi gefa aðeins í. Það var nákvæmlega það sem ég gerði. Ég hljóp síðustu níu kílómetrana á 4:40 og var bara helvíti sprækur. Eftir hlaup sagði Jón Ingi að hann hafi átt fullt í fangi með að halda mér í 4:53 því náttúrlegi hraðinn minn lægi aðeins neðar en það og því var hann bara ánægður með að ég yfirgaf þau þegar 9 voru eftir.

Ég hljóp í zone 2 og 3 nánast allan þennan 4:53 kafla en leyfði púlsinum að fara aðeins upp í lokin.

Ég fékk frábæran stuðning, fyrstar mættu systur mínar Kristín Dóra og Halla María eldsnemma út á Ægissíðu, pabbi mætti á Sæbrautina og svo mættu Halla María og fjölskylda, mamma og pabbi og Eva og Hildur María auk hjólandi Tobba, Huldu og Kollu í Fossvoginn og í markið. Sólrún Sigurgeirs og Reynir hvöttu við Sæbrautina og Sölvi stórhlaupari hvatti líka af krafti. Að öðrum ólöstuðum var þó skemmtilegast að sjá heiðursgestinn Guggu mætta með sínum aðstoðarmanni. Frábært að sjá hana í markinu.

Við vinirnir spræk í markinu að hlaupi loknu

Flögutíminn var 3:24:43 til samanburðar við 3:57:21 í Chicago. Þetta var því frekar öruggt PB og bæting um rúman hálftíma.

Ég er sannfærður um að ég gæti hlaupið hraðar í svona hlaupi ef það væri alvöru hlaup. Ég held reyndar að maður segi það alltaf þegar strategían gengur upp. Ég hljóp eins og ég ætlaði, negatíft splitt, leið vel, ferskur þegar ég kom í mark og allt bara í fínu standi. Ég hugsa samt ég hefði farið út á kannski 4:48 eða jafnvel 4:45 ef þetta hefði verið alvöru hlaup en ekkert víst að sú saga hefði verið fögur.

Í Chicago pistlinum spáði ég því að ég gæti hlaupið 10 undir 45 mín, hálft á 1:40 og maraþon á ríflega 3:40. Núna veit ég að ég get það allt og gott betur. Núna er ég meira að spá í að ná 5 undir 20, 10 undir 40, hálft undir 1:30 og maraþon undir 3:15.

Eftir hlaup tók hópurinn sundferð, hamborgara og bjór. Ég þurfti svo að skottast út á Seltjarnarnes. Þar hljóp ég sjötta kílómetrann í 10km boðhlaupi Steinda Jr. auk þess að fara í viðtal á K100.

Skjáskot úr auglýsingu frá Íslandsbanka

Mér var boðið að taka þátt í þessu verandi sá sem hefur safnað mest í ár og líklega sá eini ófrægi í þessu hlaupi. Það var svolítið skondið en ég klúðraði alveg að taka selfie og gera eitthvað mega glens fyrir utan lélegan brandara með einu vídeó á hlið. Tók við af nokkrum úr fótboltalandsliði kvenna.

Stelpurnar létu víst Steinda hafa svolítið fyrir þessu með óhóflegum hraða

Held að Elísu, litlu systur Margrétar Láru, hafi þótt svolítið skondið að ég tæki við af þeim.

Ég svaf í gestaherberginu hjá mömmu og pabba nóttina fyrir hlaup til að vera ekki á ungabarnsvaktinni
Vel merktur í boði Macron
Sirka þarna sáum við systurnar í morgunsárið
Sprækur að klára hálft
Tilbúinn í smá drykk eftir hálft
Með Jóni Inga og Hrafnhildi eftir sirka 25
Fjör í Fossvoginum, þarna var ég aðeins búinn að bæta í
Líf og fjör í Fossvogi
Í Fossvoginum eftir sirka 34
Kem í mark og hleyp aðeins lengra til að klára 42,5
Alveg ferskur þegar ég kom í markið
Hildur María mætt í fangið í markinu

Silja Úlfars, hlaupadrottning, sendi mér svo nokkrar myndir úr góðgerðarhlaupinu með Steinda. Voða fína myndir.

--

--