Maraþon #3- Flórens

Björgvin Ingi Ólafsson
12 min readNov 30, 2022

Í þriðja sinn hleyp ég maraþon og líkt og í ekkimaraþoni HHHC árið 2020 og í Chicago maraþoninu 2017 geri ég það upp með smá pistli hér. Gaman fyrir mig að eiga þetta Eiginlega öllum öðrum alveg sama. Nördarnir eru líka búnir að gaumgæfa hlaupið á Strava.

Ég stefni nú að því að gera upp hlaupárið 2022 líkt og síðustu ár (2020, 2021) en maraþon hlaup í lok nóvember er svona næstum því ígildi hlaupárs uppgjörs en það mun þó koma líka, engar áhyggjur hlaupanördar.

Ég get í raun byrjað alveg eins og síðast. Í stuttu máli sagt var þetta alveg frábær dagur, brjálæðislega skemmtilegt og planið gekk upp.

Aðdragandi Flórensferðar

Ég ákvað snemma árs að hlaupa maraþon í ár en eftir að ég fékk lungnabólgu og varð helvíti veikur í maí ákvað ég að fresta haustmaraþoninu aðeins.

Í flugvélinni á leiðinni heim frá Ameríku í maí. Ég held ég hafi bara aldrei litið jafn illa út eins og þá. Komst svo að því skömmu síðar að ég væri með lungnabólgu.

HHHC kappar stefndu til Amsterdam í október akkúrat þegar ég var í árshátíðarferð með vinnunni. Því var ég ekki alveg viss hvar ég ætlaði að hlaupa hausthlaupið mitt. Það var því akkúrat það sem mig vantaði þegar Palli Ólafs, stórhlaupari og þríþrautarkappi, bauð mér að slást í hóp af köppum sem ætluðu að hlaupa saman í Flórens í lok nóvember. Ég sló því til. Hann sannfærði mig líka um að prófa að vinna með þýska þjálfaranum Christian Nitschke sem hefur sent mér vikuleg plön síðan í viku 35. Þær æfingar hafa haldið mér vel við efnið og verið skemmtilegar og fjölbreyttar. Munar miklu að vera bæði með markmið og eins fá aðhaldið með reglulegum samskiptum við þjálfara.

Þann 6. nóvember fórum við 3/4 af Flórensförum loksins saman eina æfingu. Þá vorum við búnir að vera í messenger spjalli í síðan síðla sumars en höfðum aldrei hist. Það var helvíti gaman að hitta Bjarna og Örvar og rúlla 32 km saman. Í pottinum eftir hlaup var öllum orðið vel ljóst að stutt var í ferðina. Maður var orðinn vel peppaður og þetta var besta æfingin mín fyrir Flórens. Var orðinn bjartsýnn á þetta allt en endaspretturinn varð ekki alveg eins og ég ætlaði mér.

Ég, Örvar og Bjarni í okkar samskokki í nóvember

Endaspretturinn

Skömmu eftir samhlaup Flórensfara varð ég eitthvað slappur og svo í framhaldinu fór ég að hlaupa of snemma og varð enn slappari. Ofan á þetta bættist svo mikil törn í vinnunni og því endaði nóvember án þess að ég næði að taka æfingarnar sem ég átti að taka samkvæmt planinu. Þessu fylgdi svo að ég svaf frekar lítið líka þannig að ég var farinn að draga verulega úr væntingum um hraðann í hlaupinu í Flórens.

Flórens

Við fjórmenningar mættum til Flórens á föstudegi og hreiðruðum um okkur í fínustu íbúð rétt við rásmarkið, alveg í miðborg Flórens. Gæti ekki verið betra. Veðrið var fínt og ekki yfir neinu að kvarta. Við tókum létta fótaviðrun á laugardegi með smá skokki en annars var þetta bara gott tjill.

Laugardagsviðrun

Maraþon í Flórens

Ræs kl 5:00 og hent í sig hafragraut og einni brauðsneið með osti og slatta af vatni og tveimur kaffibollum. Slappað vel af og melt þar til við röltum út í næstu götu, út við Duomo, í startið.

Síðasta mynd fyrir brottför: Bjarni, ég, Palli og Örvar

Ég hafði hægt talsvert á fyrri hraðaplönum og fært mig frá 4:30 starti í 4:50 start. Var svolítið hræddur um að hvorki PB markmið né BTQ 2024 markmiðið væri innan seilingar og því var lítið stress. Það lýsti sér meðal annars í því að nætursvefninn var góður — sem maður býst alls ekki við svona kvöldið fyrir þon.

Við Bjarni þarna saman skömmu eftir startið

Veðrið var gott en þó svolítið kalt að bíða við rásmarkið í hátt í klukkustund. Man það næst að taka með peysu sem ég get losað mig við í startinu.

Dressið: HHHC hlýri og skór í stíl

Ég hélt plani afskaplega vel. Ætlaði að byrja á 4:50 og bæta hægt og rólega í og það varð algjörlega raunin. Ég borðaði gel og salttöflu á 5 kílómetra fresti og drakk alltaf með vatn. Pissaði eftir 7 km en annars var ég bara á góðu og vaxandi rúlli.

Ég enda á 3:17:02 flögutíma sem er PB eftir 3:24:43 í Ekki-RM og 3:57:21 í Chicago. Bæting um 7:41 frá Ekki-RM og bæting um 40:19 frá mínu eina algjörlega formlega maraþoni í Chicago. Ég var með þriggja mínútna negatívt split og leið bara almennt vel allt hlaupið (sjá Strava).

Sýnist mér ég vinna mig úr sæti 862 í 618 í gegnum hlaupið

Gleðin

Við nýju bestu vinirnir vorum allir hoppandi hressir eftir hlaup. Öllum gekk vel og fórum á þennan fína ressa, La Giostra, saman eftir hlaupið. Ressinn fékk meðmæli frá hlaupaleiðtoganum Pétri Ívars og var hægt að treysta á hann þar eins og í öðru. Allir vorum við frekar ferskir eftir hlaupið og sammála um að þetta hafi verið ótrúlega skemmtileg helgi og ánægðir að hafa hlaupið vel heppnuð taktísk hlaup og vera í góðu stuði.

La Giostra kvöld með medalíurnar

Hlaupaþjálfarinn Christian, sem var búinn að vera ansi harður við mig þegar honum þótti ég ekki fylgja leiðbeiningum nógu vel var líka voða ánægður með þetta. Sendi mér þessi skilaboð strax eftir hlaup.

Báðir erum við líka á því að ég geti alveg gert betur og það þurfi ekki að vera langt í að ná undir 3:10. Erum því að spá í að vinna eitthvað áfram saman.

Aðalmálið er sem fyrr að mér finnst þetta svakalega skemmtilegt, gerir geðheilsunni, og annarri heilsu, bara gott og mér finnst bara gaman að vera orðinn svolítill hlaupari.

Næst

Hugsa ég haldi nú áfram að hlaupa. Tek því aðeins rólega næstu daga en held svo áfram. Er að gæla við að fara í Köben maraþonið í vor og Boston maraþonið árið 2024, fyrst ég er kominn með BTQ. Aðalmálið þó bara að njóta áfram og vera góður og glaður.

Áfram veginn!

Flórens, takk fyrir mig og takk strákar, þið voruð helvíti flottir!

--

--