Maraþon #4 — Frankfurt

Björgvin Ingi Ólafsson
5 min readOct 29, 2023

--

Í fjórða sinn hleyp ég maraþon og líkt og í Flórens 2022, ekkimaraþoni HHHC árið 2020 og í Chicago maraþoninu 2017 geri ég það upp með pistli hér. Gaman fyrir mig að eiga þetta. Eiginlega öllum öðrum alveg sama. Nördarnir eru líka búnir að gaumgæfa hlaupið á Strava.

Ég er búinn að undirbúa þetta hlaup í marga mánuði undir leiðsögn hins þýska Christian. Gengið á ýmsu en almennt hafa æfingar gengið vel. Á þessu ári hef ég bætt mig í 5K og hálfu maraþoni en hef ekki átt neitt gott 10K hlaup. Hef hlaupið aðeins minna í ár en í fyrra en finnst æfingar hafa verið betri á margan hátt.

Ég var vel stemmdur í morgun. Fór aðeins út og viðraði mig eftir að hafa borða morgunmat þremum tímum fyrir hlaup eins og Christian hafði lagt til.

Dress dagsins

Við Christian vorum búnir að ákveða að ég færi út á 4:35 í 10K, fari svo á 4:30 og bæti svo í og enda á 4:27. Það gekk ekki alveg. Ég var rosalega sprækur fyrstu 25 og allt á plani og þá var ég kominn með einhverjar magaáhyggjur og barðist áfram þar til ég reyndi að fara á kamarinn á km 30 án þess að það hefði mikil áhrif. Fann þó að þar var ég orðinn frekar lúinn og ekki líklegur til að ná þessu negatíva splitti sem ég ætlaði.

Þarna var komil mikil rigning og rok og dáldið erfitt við þetta allt að eiga.

Baklandið tók vel á móti mér

Kom rennblautur í mark rétt undir 3:13 og bætti mig því um rúmar fjórar mínútur frá því í fyrra og get ekki verið annað en sáttur. Það má ekki kvarta yfir pb þó ég hafi gjarnan viljað ná þessu undir 3:10 en það gerist þá bara seinna.

Átti að vera negatíft split en var 1:35:58 og svo 1:36:57 þannig að það gekk ekki alveg (meira)

Það var svolítið erfitt að pace-a sig. Garmin var í tómu rugli allan tímann og sýndi mér eiginlega alltaf að ég væri að hlaupa á 5:XX pace þó ég vissi að ég væri það ekki og því var ég alltaf frekar forvitinn að vita hvað síðasti km var. Það var því svolítið mikill munur milli kílómetra sem er óheppilegt.

Ég enda eins og áður sagði á 3:12:58 sem er PB eins og öll maraþonin mín hafa verið. Í fyrra í Flórens var ég á 3:17:02, 3:24:43 í Ekki-RM 2020 og 3:57:21 í Chicago 2017. Bæting um 4:04 frá Flórens.

Pabbi og strákarnir komu með út sem stuðningsmenn og voru með mér í startinu. Fóru líka með mér í expóið í gær og voru bara hinir bestu stuðningsmenn.

Bestu frammistöðuna átti svo Baddý vinkona hennar Evu sem býr í Frankfurt en hún hjólaði 30 km og hitti mig mörgum sinnum á leiðinni og var alveg ótrúlega öflugur peppari. Fannst fyndið þegar hún sagði okkur eftir hlaupið að hún hafi ekki hjólað svona langt í mörg ár.

Baddý stórmeistari og baklandið

Hitti svo ofurhlauparann Börk af Suðurnesjunum og Guðnýju hans nokkrum sinnum í ferðinni og það var voða gaman. Börkur er ótrúlega öflugur hlaupari og endaði á 2:40:33.

Var erfitt. Á að vera erfitt. Var ekki neitt ippon í dag en skref í rétta átt. . Tvær tær á vinstri í tjóni (sýni ekki mynd).

Glaður með þetta. Rosalega fín ferð og frábært að hlaupa maraþon eftir langan undirbúning. Gekk bara ágætlega og fer klárlega í bankann.

Enduðum daginn á miklum ævintýrum við að koma okkur á stórleik Eintracht Frankfurt og Borussia Dortmund. Mættum ekki fyrr en í hálfleik en sáum samt þrjú mörk. Lentum svo í enn meiri ævintýrum í að koma okkur af vellinum þar sem ég meðal annars hljóp í svona kílómetra til að sannfæra Uber bílstjórann um að bíða (sem hann gerði ekki). Fann þó taxa og því komumst við á ressann þar sem kvöldinu lauk á fínasta tapanyaki stað. Kominn í koju og heim á morgun.

Þarna er ég sirka eftir 32 km

Á veggnum
Af EXPOinu

--

--