Meira en milljón í Hlaupastyrk fyrir fatlaða ferðalanga

Um nokkra hríð hef ég, ásamt fleiri góðum stutt hana Guggu vinkonu til sumarfrís einu sinni á ári (sjá Ferðasjóð Guggu á Facebook þar sem eru um 350 manns). Gugga er bundin við hjólastól eftir fólskulega líkamsárás á unglingsárum sem breytt algjörlega tilveru Guggu og lífshlaupi.

Baksíða Morgunblaðsins 3. október 1993
Umfjöllun um árásina í Morgunblaðinu 5. október 1993

Flottur ferðasjóður + Hlaupastyrkur => Ógleymanleg ferðalög

Ferðalögin hafa verið Guggu ógleymanleg. Hún hefur meðal annars farið til Chicago að sjá U2, til Svíþjóðar og á Madonnutónleika í NY sem Gugga skrifaði um hér. Undanfarin ár hafa nokkrar hetjur líka hlaupið fyrir Guggu í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka undir merkjum Hlaupastyrks Ferðasjóðs Guggu og ætla að gera aftur í sumar. Fyrir Guggu hafa meðal annarra hlaupið gamlir vinir úr grunnskóla eins og Arna og Erla, Andrés Jóns almannatengill og Hildur Kristmunds sem vinnur með mér í Íslandsbanka og fyrir það er Gugga auðvitað afskaplega þakklát.

Undanfarin ár hefur gengið vel að safna fyrir Guggu og hún hefur komist í sína árlegu ferð með góðum stuðningi þessa góða hóps. Í raun hefur mér fundist að ég gæti gert meira en styðja bara Guggu því með aðstoð margra (haldið endilega áfram) er þróttur ferðasjóðsins nægur til þess að draumar Guggu rætist — þó ég geri miklu minna nú en þegar við fórum af stað fyrir mörgum árum.

Tók saman 2015 hvernig framlög til Ferðasjóðs Guggu dreifðust 2011–2015

Er hægt að gera meira?

Ágætur stjórnandi stórs fyrirtækis hér í bæ, sem hefur stutt vel við við Guggu í gegnum tíðina, spurði mig einu sinni hvort ég hefði ekkert hugsað um að stækka sjóðinn og hlutverk hans, hvort hægt væri að gera meira. Eftir að hafa hugsað þetta lengi, meðal annars hvort ég ætti að stofna nýtt félag með víðara umboð til að styðja við fleiri fatlaða til ferðalaga þá komst ég að því að til er Hjálparliðasjóður Sjálfsbjargar sem hefur að markmiði að styðja fatlaða til ferðalaga.

Í stað þess að stofna nýtt félag setti ég mig í samband við Sjálfsbjörgu og forsvarsmenn Hjálparliðasjóðs Sjálfsbjargar með það fyrir augum að sjá hvort ég gæti hjálpað þeim. Við ákváðum að í ár yrði Hjálparliðasjóðurinn nýr valkostur í Hlaupastyrk Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka og ég myndi hlaupa fyrir Hjálparliðasjóð Sjálfsbjargar. Góður hópur hleypur áfram fyrir Guggu og ég mun áfram styðja við sjóðinn en ætla að sjá hvort ég gæti hjálpað Hjálparliðasjóði Sjálfsbjargar að styrkjast sem mikil þörf er á.

Það var nokkuð áfall þegar ég komst að því hversu veikburða Hjálparliðasjóðurinn er. Í raun getur hann trauðla stutt fatlaða til ferðalaga. Eins og staðan er í dag getur sjóðurinn í besta falli stutt nokkra fatlaða um örfáa tugi þúsunda á hverju ári. Það er sjaldnast nóg til að breyta því að þeir sem hafa ekki efni á ferðalögum geti ferðast.

Ég veit hversu þörfin er mikil og hversu mikinn lit í líf fatlaðra ferðalög geta veitt. Þeir sem eru mikið fatlaðir ferðast ekki án aðstoðar eins eða tveggja aðstoðarmanna og er því ljóst að kostnaður við ferðalög getur verið umtalsverður og reynst mörgum um megn án góðs stuðnings.

Mín áskorun — milljón í maraþoninu

Ég hef því skorað á sjálfan mig að breyta þessu eins mikið og ég get. Mín áskorun í ár er ekki jafn stór og áskorun Valdimars en ég ætla engu að síður að stefna að því að stórefla Hjálparliðasjóð Sjálfsbjargar og safna að minnsta kosti einni milljón króna fyrir sjóðinn með því að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 20. ágúst.

Markmiðið, fyrir utan milljónina góðu er að sjálfsögðu að efla vitund okkar allra fyrir því hversu mikilvægt er að færa lit í líf fatlaðs fólks með því að gefa því kost á því að ferðast og upplifa ævintýri.

Ég væri því afskaplega þakklátur ef þið gætuð séð af nokkrum krónum til Hjálparliðasjóðs Sjálfsbjargar í Hlaupastyrk Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka . Ég er sannfærður um að við getum saman fært fötluðum ótrúlega gleði með því að gefa þeim kost á að ferðast — eitthvað sem fjölmargir fatlaðir eiga mjög erfitt með að gera í dag — og megið að sjálfsögðu líka styðja Ferðasjóð Guggu og öll hin frábæru góðgerðafélögin.

…og ég hef mjög gott af því ef þið byrjið að styðja. Ef þið byrjið af krafti að styðja við söfnunina þá hef ég nefnilega engar afsakanir lengur fyrir því að vera ekki byrjaður að undirbúa mig.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store