„Nei, við tökum ekki við reiðufé“

Ég var nýlega í Stokkhólmi og fannst merkilegt að sjá hversu svakalega nálægt Svíþjóð er að vera seðlalaust samfélag.

Nýir peningaseðlar voru teknir í notkun í Svíþjóð í október en þó hafa fæstir Svíar séð þessa seðla með eigin augum — því nánast enginn notar seðla í landinu.

Þróunin er það hröð að meira að segja sænska seðlabankanum þykir nóg um og hefur bankinn áhyggjur af því að jaðarbyggðir séu jaðarsettar í seðlalausri Svíþjóð þegar seðlaleysis-infrastrúktúrinn er ekki alveg jafn tilbúinn og seðlabankinn vill.

Svíar plögga seðlalausu samfélagi á hinum opinbera Twitter þjóðarinnar

Svíar hafa náð eftirtektarverðum árangri. Bankaútibú í Svíþjóð eru flest seðlalaus, fæstir veitingastaðir taka við reiðufé, strætó tekur ekki við reiðufé og undir 2% af öllum greiðslum í Svíþjóð fara fram með reiðufé. Ferðamenn eru hvattir til þess að bera ekki reiðufé á sér í Svíþjóð og meira að segja áminntir við komuna til landsins að enginn þörf sé á því fara í hraðbanka í Svíþjóð. Meira að segja kirkjusafnanir fara fram án reiðufjár og heimilislausir taka seðlulausu samfélaginu fagnandi.

Eitt nokkurra opinberra plöggmyndbanda Svía um seðlalaust samfélag

Reiðufé er einfaldlega alveg við það að hverfa í Svíþjóð enda er því spáð að reiðufjárhlutfall í Svíþjóð verði undir 0,5% innan fimm ára — seðlar og mynt hafa þá einfaldlega horfið sjónum flestra. Danir, Hollendingar og fleiri eru langt komnir á sömu vegferð. Við eigum (vannýtt) tækifæri til að vera þarna líka við toppinn.

Augljós samfélagslegur ávinningur

Samfélagslegur ávinningur af því að útleiða reiðufé er mikill, til dæmis hefur Ken Rogoff í Harvard lýst yfir miklum ávinningi seðlaleysis. Beinn kostnaður reiðufjár er talsverður auk þess sem barátta yfirvalda gegn svartri atvinnustarfsemi er talsvert auðveldari í seðlalausu landi. Erfitt er að meta þessar stærðir að fullu en kostnaður hagkerfisins er óumdeilanlega umtalsverður.

Samkvæmt rannsókn Tufts University og Steinbeis University Research Center for Financial Services getur kostnaður seðlasamfélagsins numið allt að 1,5% af vergri landsframleiðslu (200 milljarðar Bandaríkjadala) og tapaðar skatttekjur vegna svartar atvinnustarfsemi í Bandaríkjunum metnar um 500 milljörðum Bandaríkjadala í sömu rannsókn.

Margt hefur verið gert í Evrópu til að draga úr umfangi reiðufjárnotkunar. Það er gert m.a. til að gera ólöglega starfsemi torveldari enda er seðlalaust samfélag eitt besta tæki stjórnvalda til að draga úr svartri atvinnustarfsemi. Á Spáni og í Frakklandi hafa sem dæmi verið sett lög til að draga úr reiðufjárnotkun, í Frakklandi er til dæmis ólöglegt að nota reiðufé í viðskiptum umfram €1,000.

Ísland getur vel orðið seðlalaust samfélag

Grunnstoðir fjármálakerfisins hér á landi, mikil kortanotkun, öflug greiðsluöpp eins og Kass og almennt tæknilæsi Íslendinga gerir Ísland vel til þess fallið að stinga Svíþjóð af í umbreytingu til seðlalauss samfélags.

Við erum komin langt í átt til seðlalauss samfélags en þó ekki jafn langt og sumir héldu áður. Árið 1998 mat iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem svo að innan fimm ára væri Ísland líklega orðið seðlalaust samfélag.

Samkvæmt SFF fara 10% greiðslna íslenskra heimila fram með reiðufé og höfum við því fínan meðbyr til frekari sóknar og komast á „2% sænskan stall“ í þessum efnum.

Nýtum sameiginlegan slagkraft

Við höfum hins vegar því miður ekki alveg staðið okkur jafn vel og Svíar í að nýta sameiginlegan slagkraft samfélagsins í uppbyggingu seðlalauss samfélags.

Hagsmunir neytenda, launþegasamtaka og atvinnurekenda fara saman í að nýta sterka innviði fjármálakerfisins til umbreytingar Íslands í seðlalaust samfélag.

Í seðlalausu samfélagi felst mikill ávinningur og má einfaldlega auka öryggi, auka skilvirkni og draga úr kostnaði við greiðslur og greiðslumiðlun á Íslandi öllum til heilla.

Öll sem eitt

Við þurfum að leggjast á eitt. Sýnist sem dæmi að lagaumhverfi okkar stuðli ekki mjög að umbreytingu í seðlalaust samfélag. Í lögum um Seðlabanka Íslands (36/2001) og lögum um gjaldmiðil Íslands (22/1968) „Seðlar og mynt sem Seðlabankinn gefur út skulu vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði“ öðruvísi en svo að ólöglegt sé að hafna því að taka við íslenskum seðlum og mynt í viðskiptum eins og tíðkast í kringum okkur þar sem búðir eru “kontantfri”. Kannski er ég að misskilja en þýðir þetta ekki einfaldlega að það er löglegt að greiða með mynt eða seðlum útgefnum af Seðlabankanum og því er hætta á því að ef því er neitað, teljist það brot á þessu ákvæði?

Ljóst er að hér á landi er ónýtt tækifæri til uppbyggingar seðlalauss samfélags Uppbygging seðlalaus samfélags er raunhæfur kostur þó það sé þvert á niðurstöðu ræðumanna á fundi Landsbankans 2013. Sem dæmi lauk Guðmundur Tómasson frá Seðlabankanum sínu erindi á að svara spurningu fundarins; „Verður framtíðin án reiðufjár? Nei! Náin framtíð verður ekki án reiðufjár.“ GT gaf sér vissulega fyrirvara með „náin“ en ég held það sé styttra í það en GT og aðrir fundarmenn héldu 2013. Kannski er nú kominn tími á að fimm ára rammann til seðlaleysis sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra gaf sér, heldur snemma, árið 1998, raungerist.

Ef við leggjumst á eitt þá getum við á skömmum tíma klárað að búa saman til seðlalaust íslenskt samfélag, framtíð án reiðufjár — öllum til heilla.

Speki / Heimildir

Forsætisráðherra Indlands er með mér í #TeamCashless — eðlilega stórt baráttumál þar sem eiginlega enginn á Indlandi borgar skatta og svik og falsaðir seðlar frekar regla en undantekning.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store