Reykjavíkurvíkurmaraþon Íslandsbanka er meira en einhver íþróttakeppni — þetta er stærsta fjáröflun landsins. Það er áskorun okkar hjá Íslandsbanka að bera virðingu fyrir þessu, vera jákvætt hreyfiafl, styðja við mikla og góða þátttöku í hlaupinu og um leið stuðla að því að sem mest safnist á www.hlaupastyrkur.is.

Undanfarin ár hafa margir snillingar verið talsmenn Reykjavíkurmaraþons. Ég var nýmættur til starfa í bankanum 2014 þegar Skálmöld stóð sig svakalega vel sem Maraþonmennirnir og vann svo með snillingunum Steineyju og Halldóru sem voru frábærar sem Maraþonmæðgurnar 2015.

Nýr tónn — Stærri áskorun

Í ár er nokkuð annar taktur sleginn en undanfarin ár í sókn Reykjavíkurmaraþonsins. Það er alvarlegri undirtónn í verkefninu og við nálgumst það af meiri auðmýkt en áður því nú er áskorunin flóknari og meiri en nokkru sinni fyrr.

Í ár er Valdimar Guðmundsson tónlistarmaður í forgrunni þessarar stærstu fjáröflunar landsins. Valdimar lýsti í gríðarlega áhrifaríku viðtali við Kastljósið ofþyngd sinni og tilkynnti um persónulega uppreisn gegn eigin ásigkomulagi. Kiddi umboðsmaður hljómsveitarinnar Valdimars er frábær (sjá viðtal hér) og hann og Valdimar komust sameiginlega að því að það að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu væri akkúrat það sem Valdimar þyrfti að gera.

Valdimar er magnaður. Ekki bara magnaður tónlistarmaður og söngvari heldur magnaður karakter og í undirbúningi þessarar stóru áskorunar hefur hann sýnt öllum sem að þessu koma að hann er og getur verið okkur öllum mikill innblástur.

Viðtal Kastljóssins við Valdimar

Valdimar hefur hafið vegferðina með okkur og við förum í hana saman á www.minaskorun.is, í hópnum Mín áskorun á Facebook og notum myllumerkið #mínáskorun á Twitter.

Við kynntum samstarfið við Valdimar fyrir starfsfólki fyrir nokkrum vikum og svo þjóðinni í gærkvöldi eftir Eurovision útsendinguna. Auglýsingin sem við sýndum þá, og bara þá, byrjaði með „auglýsingu“ um minningartónleika Valdimars — söngvarans sem kvaddi of snemma. Næsta sem sést er að Valdimar vaknar upp, í svitakófi, af þeim vonda draumi að minningartónleikar um hann hafi farið fram. Að lokum er vísað á www.minaskorun.is.

Ég viðurkenni það að ég var alveg smeykur við þessa hugmynd þegar hún kom fyrst upp. Það hversu Valdimar var áfjáður sjálfur í að keyra þetta svona var það sem þurfti til að sannfæra mig á endanum um að þetta væri rétta leiðin. Þetta er miklu stærra mál fyrir hann en marga aðra — eins og hann lýsti á svo áhrifaríkan hátt í Kastljósviðtalinu. Þess vegna fórum við þessa leið.

Skömmu eftir birtingu fyrstu auglýsingar sendi Valdimar þessi skilaboð á Twitter og jafnframt önnur sambærileg skilaboð á öðrum samfélagsmiðlum.

Fyrstu mínúturnar eftir birtingu auglýsingarinnar voru viðbrögðin á Twitter og Facebook mjög mikil. Af augljósum ástæðum var Ari Jóhannesson í miklu uppáhaldi okkar. Viðbrögðin voru þó almennt bæði sterk og góð.

Við áttum von á að einhverjum þætti þetta erfið auglýsing á að horfa eða jafnvel óviðeigandi. Markmiðið okkar var að lágmarka slík viðbrögð með því að bera alveg svakalega virðingu fyrir verkefninu, nálgast það af auðmýkt og átta okkur sem best á því að um var að ræða var allt annað en einfalda eða dæmigerða auglýsingu.

Eftir auglýsingarbirtinguna á RÚV hófst sókn herferðarinnar sjálfrar af alvöru. Hún var fyrst og fremst á Facebook og á www.minaskorun.is. Það sem tók svo við þeim þúsundum sem fóru á www.minaskorun.is var þetta myndband, sem hélt sögunni áfram þar sem auglýsingunni á RÚV lauk. Valdimar ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka — það er hans áskorun.

Valdimar segir frá fyrstu skrefunum í undirbúningi fyrir 10 kílómetrana í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 20. ágúst

Við birtum þetta myndband strax á Facebook. Klukkutíma eftir birtingu voru 10 þúsund búin að sjá það og klukkutíma síðar höfðu 20 þúsund bæst við og yfir þúsund höfðu jafnframt séð hvert hinna önnur fjögurra hliðarmyndbanda sem birt voru samhliða á Facebook.

Af mörgum statusum á Facebook í gærkvöldi var þessi sem er hér að neðan frá söngvaranum Friðrik Ómari eiginlega fallegastur. Friðrik Ómar tilkynnir þarna að hann, Matti Matt og Jógvan styðji Valdimar alla leið og jafnframt að þeir ætli að heita á hann á Hlaupastyrk — en þeir voru nefndir sem söngvararnir sem syngja lög Valdimars í „minningartónleika-auglýsingunni“. Mikil snilld.

Facebook færsla Friðriks Ómars að kvöldi birtingar auglýsingar á RÚV. Sjá: https://www.facebook.com/fridrikomar/posts/966559526793225

Lifandi kvöld

Um 1,500 höfðu gengið í hópinn Mín áskorun á Facebook skömmu eftir birtingu, þúsundir kommentað og lækað á Facebook, skrifað statusa á Facebook, tíst á Twitter og Vísir, Nútíminn, MBL og Bleikt skrifuðu fréttir um auglýsinguna og viðbrögðin við henni. Viðbrögðin voru því aldeilis lifandi.

Sáum skýrt í gærkvöldi að á Íslandi ber Facebook höfuð og herðar yfir aðra miðla í dreifingu sem þessari. Twitter er skemmtilegur miðill en ekki nálægt því jafn áhrifaríkur og alltumlykjandi og Facebook.

Löng vegferð

Uppreisn Valdimars er langt því frá lokið. Henni lýkur ekki með Reykjavíkurmaraþoninu 20. ágúst en næstu mánuði munu Valdimar og Íslandsbanki fylgjast að í að efla þrótt og styrk Valdimars, byggja upp stemninguna fyrir hlaupi ársins og söfnuninni á www.hlaupastyrkur.is.

Við hjá Íslandsbanka munum styðja Valdimar og aðra hlaupara í að takast á við sínar áskoranir hvort sem þeir ganga hægt eða hlaupa hratt með okkur í ágúst. Við höfum líka sett okkur markmið um að bæta söfnunarmetið verulega og munum gera allt til þess að það takist.

Hans áskorun

Valdimar ætlar að taka heilsuna föstum tökum. Það skiptir mestu máli. Valdimar ætlar að fara 10 kílómetra til stuðnings Krabbameinsfélaginu. Það skiptir líka miklu máli. Það má einmitt styrkja Krabbameinsfélagið á hans síðu á Hlaupastyrk. Valdimar mun veita öðrum styrk til að fara af stað, taka þátt í maraþoninu með einum eða öðrum hætti og safna til stuðnings góðra verka. Það er frábært. Við hjá Íslandsbanka erum stolt af góðu sambandi okkar við ÍBR um Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og því skrefi sem við höfum stigið í þróun hlaupsins í ár með samstarfinu við hinn mæta Valdimar.

Það var áskorun að finna rétta tóninn í sókn Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2016. Það sem Valdimar er að gera er þó miklu miklu stærra.

Skemmtileg áskorun

Þó verkefnið sé stórt og áskorunin mikil þá er Reykjavíkurmaraþonið líka mikil hátíð og ástæða til að fagna með fjölskyldu og vinum. Allir sem taka þátt, leggja Hlaupastyrk lið eða mæta á hliðarlínunni eru sigurvegarar — hver á sínum forsendum, og taka þátt í að skapa magnaða stemningu og góðar minningar. Í sumar ætlum við að eiga frábært Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka, safna meiru en nokkru sinni fyrr, skemmta okkur saman og vera stolt af því að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store