
Spekingar í bláum skyrtum
Með þessum þremur er tíma betur varið en á Facebook eða Vísi
Það er ótrúlega auðvelt að eyða tímanum á Netinu. Flest er bara suð. Fátt er gott. Örfátt er frábært.
Í mínum huga eru þessir þrír bestu spekingarnir sem má fylgja á Netinu fyrir þá sem vilja fylgjast með því sem er að gerast í tækni og viðskiptum. Ólíkir, allir frábærir. Engin tíðindi fyrir marga en þeir sem þekkja þá ekki þurfa ekki að sjá eftir að lesa lengra.
- Ben Thompson, Stratechery (https://stratechery.com/ )
- Adam Grant, The Wharton School (http://www.adamgrant.net/)
- Tim Urban, Wait But Why (https://waitbutwhy.com/)
Ben Thompson: Einyrki í Taívan sem allir tæknimógúlar lesa
Ben er ótrúlega naskur á það sem skiptir mestu máli í tækniheimum með sjaldgæfu jafnvægi milli tækni- og viðskiptaþekkingar þar sem “af hverju” og “hvað svo” eru algengustu upphafsspurningarnar. Hann rukkar $10 á mánuði fyrir áskrift að daglegu fréttabréfi en hægt er að lesa hluta efnisins frítt á vefnum hans. Hann fer svo líka yfir málin í Exponent hlaðvarpinu sínu. Ben gefur ekki upp fjölda áskrifenda en gefur til kynna að hann sé svakalegur og segir að tekjur sínar hafi hundraðfaldast á síðustu árum.
Hægt er að nefna fjölmörg dæmi um góðar greinar. Ein nýleg fjallar um áskoranir Google og umfjöllun um félagið í 60 minutes.
Mér finnst bestu rökin fyrir því að þú ættir að lesa skrifin hans Ben er að ég hef ekki hitt einn farsælan íslenskan frumkvöðul eða tæknimógul sem ekki les kappann og vísar í hann reglulega. Ef það er ekki nóg til að sannfærast má taka hálftíma í að hlusta á hann koma með nokkra góða punkta og tala um hvað hann er að gera.
Mér finnst aulalegt að þekkja hann ekki því hann útskrifaðist frá Kellogg School of Management ári á undan mér og því vorum við samtíða þar í eitt ár. Ég vissi ekkert hver þetta var þá. Vissi raunar ekki að hann væri Kellogg gaur fyrr en löngu eftir að ég byrjaði að fylgjast með honum.
Adam Grant: Sjamerandi ungi háskólaprófessorinn
Yngsti fastráðni prófessor Wharton School í Fíladelfíu. Valinn besti kennarinn í skólanum í sjö ár í röð. Skrifað þrjár bækur; ”Give and Take”, “Originals” og “Option B” (með Sheryl Sandberg). Er með hlaðvarpið WorkLife í samstarfi við Ted og spekingabókaklúbinn The Next Big Idea Club með Malcolm Gladwell, Daniel Pink og Susan Cain sem lofar að benda á metsölubækurnar áður en þær verða metsölubækur.
Tengt bókunum og rannsóknum er fjöldi greina og myndbanda. Ted ræða hans frá 2016 “ The Surprising Habits of Original Thinkers” og 2017 “ Are You a Giver or a Taker?” eru báðar með vinsælustu Ted ræðunum.
Mér finnst hann frábær því hann ýtir við manni og ég trúi því að því meira sem ég iðka af því sem hann boðar því betri og farsælli verð ég.
Tim Urban: Sá hnyttni sem þykist ekkert vita
Brjálæðislega löng blogg skreytt með Óla Prik köllum er fyrirfram ekki frábær formúla hugvekjandi snilldar. Það er þó nákvæmlega það sem Tim Urban gerir á Wait But Why.
Margt af þessu er ótrúlega snjallt en um leið ótrúlega fyndið. Greinin, og Ted fyrirlesturinn um frestunaráráttu, (e . procrastination) er stórkostleg.
Skrifin hans “Doing a TED Talk: The Full Story” og tilheyrandi skema um “Public Speaking Methods: Pros and Cons” er ekkert nema snilld og hefur haft svakaleg áhrif á mig. Ég notaði það meðal annars í tveimur pistlum sem ég skrifaði; “Second Time’s a Charm” og “Public speaking “blunder”: Is it too late now to say sorry?”.
Elon Musk bað hann svo einu sinni um að skrifa um sig og ævintýri sín. Hann gerði það auðvitað. Frásögnin er frábær, myndirnar fyndnar og það hvernig hann leysir verkefnið bráðsnjallt. Byrjar á “Elon Musk: The World’s Raddest Man”. Hægt er að nefna fleiri dæmi um góða pistla eða greinaflokka. Efnið á sameiginlega djúpa innsýn og beittan húmor.
Ekki úr vegi að veita smá íslenskt aukahrós í lokin. Það er ekki langt síðan ég byrjaði að fylgjast með Leslistanum. Ég mæli með honum. Leslistinn er póstlisti tekinn saman af Kára Finnssyni og Sveini Norland. Þó þeir séu kannski ekki alveg jafn svakalegir og félagarnir að ofan þá benda þeir á gott efni ég vil hrósa þeim fyrir að halda úti metnaðarfullum ábendingarpósti á íslensku sem enginn verður svikinn af að gaumgæfa.
Aðrir frægir tækni- og viðskiptaspekingar sem mætti nefna eru Mary Meeker sem gefur út árlega tæknispá í nafni KPCB, Ben Evans hjá Andreessen Horowitz og Jason Fried hjá Basecamp. Af heimavellinum má nefna Hjalla sem skrifar skemmtilega á síðuna sína (bara of sjaldan).